Frjálshyggjustaurunum og nöldurseggjunum í Sjálfstæðisflokknum er sífellt meira uppsigað við RÚV. Þeir hafa lengi vænt fréttastofu RÚV um að vera vinstrisinnaða og halla undir aðra flokka en núverandi stjórnarflokka sérhagsmunanna.
Þegar núverandi ríkisstjórn komst til valda skipti hún að sjálfsögðu um stjórn í RÚV og valdi nýjan útvarpsstjóra, sem er hreint ekki vinstrimaður. Eins skipt var um alla yfirstjórn hjá stofnuninni. Fréttastjórinn fór í annað og nýr fréttastjóri var ráðinn, kona sem ekki er reynt að staðsetja í neinum sérstökum flokki.
Samt halda þeir áfram að nöldra. Einn þeirra sem gengur hvað harðast fram í því, fyrir utan höfund Reykjavíkurbréfs Mogga og Björn Bjarnason, er Óli Björn Kárason sem skrifar reglulega niðurrifsgreinar í Morgunblaðið sem ávalt eru birtar á besta stað, þeim sama og jafnan er frátekinn fyrir Hannes Hólmstein, Jón Steinar, Hjörleif Guttormsson og Halldór Blöndal.
Þann 3. júní birti hann samantekt á einhverju sem honum fanst um fréttamat RÚV að undanförnu. Hafði það að mati Óla Björns ekki verið ríkisstjórninni nógu hagfellt og alls ekki rétt metið með tilliti til stöðunnar á vinnumarkaði. Skilja mátti á nöldrinu að RÚV kynnti undir átökum á vinnumarkaði og vildi alls ekki segja frá miklum fórnum ríkisstjórnarinnar fyrir hönd ríkissjóðs allra skattgreiðenda.
Það er auðvitað ekki gott ef fjölmiðlar reyna að gera erfiða stöðu á vinnumarkaði enn flóknari með neikvæðum fréttaflutningi. Því er rétt að líta á nokkrar fyrirsagnir af forsíðu Morgunblaðsins frá síðari hluta mai þegar staðan var hvað viðkvæmust.
Dæmi um uppslátt á forsíðu Morgunblaðsins dagana 18. til 21. mai þegar staðan á vinnumarkaði var einkar eldfim: “Hundruð grísa á haugana?”, “Aukin harka. Engir fundir”, “Viðræðuslit og allt í hnút. Þungt hljóð deilenda”, “Komnir upp að vegg. Forystumenn VR, Eflingar og BHM segja kjaraviðræðurnar í sjálfheldu.”
Óli Björn Kárason hefur ekki gert neinar athugasemdir við þennan neikvæða uppslátt Morgunblaðsins. Það virðist hafa verið allt í lagi. Það er bara ef fréttamat RÚV er neikvætt að mati hans sem ástæða er til að nöldra og segja: “Fjölmiðlar þurfa aðhald.” Spyrja má hvort hann eigi þá við að stjórn RÚV eigi að beita fréttastofuna ritskoðun. Í hverju felst aðhaldið?
Fróðlegt væri að vita hvernig menn skilgreina aðhald á Morgunblaðinu. Er það ekki bara einfalt og þannig að svo lengi sem ritstjórnin gengur grímulaust erinda eigendanna og lítur eftir sérhagsmunum þeirra í sjávarútvegi og landbúnaði, þá þurfi ekki að kvarta undan neinu og þá borgi kvótahafar og bændahöfðingjar tapið á blaðinu með bros á vör. Þannig hefur það alla vega verið á síðari árum eftir að blaðið var endurreist eftir milljarða niðurfellingar skulda og fjárhagslega endurholdgun.
Óli Björn Kárason ætti að vita manna best að það þarf að endurreisa fjölmiðlafyrirtæki eftir að þeim hefur verið siglt í strand. Sjálfur tók hann við DV í blóma á sínum tíma, eftir að Sveinn R. Eyjólfsson og Jónas Kristjánsson, höfðu gert það að stórveldi. Óli Björn fór fyrir hópi sem kom DV á heljarþröm á undraskömmum tíma með þeim afleiðingum að verulegir fjármunir runnu úr djúpum vösum sægreifa í Vestmannaeyjum sem væntanlega hafa ekki glaðst yfir þeirri frammistöðu.
Einhverjir hafa gleymt DV-klúðri hans. Aðrir muna eftir þessari sneypuför Óla Björns þegar hann birtist í miðopnu Mogga, setur sig á haán hest og dæmir mann og annan fyrir margskonar misgerðir og sleifarlag að hans mati.
Sumir hafa aldrei vit á að þegja.