Óboðleg og gróf mismunun milli fjölmiðla í boði Alþingis

Því verður ekki trúað að Alþingi láti það yfir sig ganga að dvergfjölmiðill á Akureyri, N4 sjónvarpið, fái 100 milljónir króna að gjöf frá Alþingi nú á jólaföstu eins og lagt er upp með.

Kjarninn og Mannlíf greina frá því að meirihluti fjárlaganefndar þingsins geri tillögu um þetta við afgreiðslu fjárlaga nú. María Björk Ingvadóttir frá Sauðárkróki er framkvæmdastjóri N4 á Akureyri en mágur hennar, Stefán Vagn Stefánsson framsóknarþingmaður á Sauðárkróki, situr í fjárlaganefnd sem virðist ætla að rétta þessum litla en ágæta miðli á Akureyri umræddar 100 milljónir króna við afgreiðslu fjárlaga. Þessi tengsl vekja óneitanlega hugrenningartengsl við það sem Vilmundur heitinn Gylfason sagaði löglegt en siðlaust! Hugmyndin er algerlega galin og því verður vart trúað að tillagan nái fram að ganga í þinginu. En engu að síður kennir sagan að margt skrítið gerist á Alþingi í svartasta skammdeginu við afgreiðslu fjárlaga. Ekki mun þetta auka traust á þjóðþinginu og kjörnum fulltrúum.

Litla sjónvarpsstöðin N4 er m.a. í eigu KEA, Kaupfélags Skagfirðinga og Síldarvinnslunnar þar sem Samherji er stærsti hluthafinn. Spyrja má hvort þessir aðilar séu ekki nægilega sterkir fjárhagslega til að leggja N4 til þessar 100 milljónir í stað þess að ætla að sækja fjárhæðina í ríkissjóð umfram það sem viðgengist hefur hingað til. Sjónvarpsstöðin N4 fékk styrk frá ríkissjóði vegna fjölmiðlarekstrar sem nam 21 milljón króna. N4 veitir fjórum starfmönnum vinnu. Þetta er um einn þriðji hluti af þeim styrk sem Morgunblaðið fékk en þar starfa á annað hundrað manns. Styrkur Morgunblaðsins nam á þessu ári 67 milljónum króna sem var það sem stærstu fjölmiðlar landsins fengu í sinn hlut, en auk Morgunblaðsins voru það Sýn og Torg.

Svo er það kapítuli út af fyrir sig hvernig stjórnvöld hafa komið fram við einkarekna fjölmiðla. Árum og jafnvel áratugum saman hefur því verið heitið að taka ríkisútvarpið og ríkissjónvarpið af auglýsingamarkaði eins og tíðkast í nágrannalöndum okkar varðandi ríkisfjölmiðla. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ályktað um það á landsfundum í áratugi, síðast nú í nóvember, og Framsóknarflokkurinn hefur verið með stórar yfirlýsingar í þessa veru. Ráðherra menningarmála, sem fer með málefni ríkismiðilsins, hefur verið með sverar yfirlýsingar um að standa við þessi loforð og taka ríkismiðilinn af auglýsingamarkaði en ekkert aðhafst. Lilja Alfreðsdóttir hefur lofað þessu samfellt í fimm ár en ekki staðið við neitt í þessu efni. Við myndun núverandi ríkisstjórnar fyrir ári var Lilja mjög afgerandi í tali um að nú yrði gengið í að taka ríkismiðilinn af auglýsingamarkaði. En ekkert bólar enn á efndum.

Þá er það látið viðgangast að erlendir fjölmiðlar sem birta auglýsingar frá Íslandi þurfi ekki að standa skil á sköttum eins og innlendir miðlar þurfa að gera. Erlendir miðlar komast upp með að auglýsa áfengi og tóbak eins og þeim sýnist en innlendum miðlum er bannað að gera það, að viðlögðum þungum refsingum. Þetta gerist fyrir framan nefið á stjórnvöldum, ekki bara Lilju Alfreðsdóttur, heldur allri ríkisstjórninni og gjörvöllum þingheimi. Svo birtist þetta fólk, einkum Katrín forsætisráðherra og Lilja Alfreðsdóttir, og lýsa yfir áhyggjum af framtíð íslenska tungumálsins og stöðu frjálsra fjölmiðla í því samhengi.

Ekki dugar að halda fallegar og uppskrúfaðar ræður á hátíðisdögum og aðhafast svo ekkert – svíkja gefin loforð eins og ekkert sé.

- Ólafur Arnarson.