Ný Gallupkönnun sýnir kröfu um breytingar – Miðjubandalagið bankar

Gallup hefur birt niðurstöður úr stórri netkönnun þar sem 9.705 kjósendur voru spurðir hvað þeir myndu kjósa ef gengið yrði til kosninga nú. Svarhlutfall er 50 prósent Svona stór könnun er vissulega marktæk. Hún sýnir umtalsverðar breytingar frá Alþingiskosningunum í september 2021. Þar vegur að sjálfsögðu þyngst að þingstyrkur núverandi ríkisstjórnar fer úr 38 þingmönnum niður í 31. Þar með væri ríkisstjórnin fallin.

Í kosningunum í fyrra fékk Sjálfstæðisflokkurinn 16 þingmenn kjörna og svo einn „gefins“ strax eftir kjördag þegar Birgir Þórarinsson sveik félaga sína í Miðflokknum, sem unnu að kjöri hans, og gekk í þingflokk Sjálfstæðisflokksins. Þá var þingmannafjöldi Sjálfstæðisflokksins orðinn 17. Samkvæmt könnun Gallup tapaði flokkurinn tveimur og fengi 15 menn kjörna. Vinstri græn tapa einnig tveimur samkvæmt þessari könnun og Framsókn þremur. Samtals tapa ríkisstjórnarflokkarnir 7 þingsætum.

Eins og í stórri Gallupkönnun fyrir einum mánuði blasir við að unnt yrði að mynda ríkisstjórn sömu flokka og hafa nú tekið höndum saman um meirihlutasamstarf í Reykjavíkurborg. Miðjubandalagið fengi hreinan meirihluta atkvæða og 35 þingmenn kjörna. Framsókn fengi 10 þingmenn eins og Píratar, Viðreisn fengi 6 menn kjörna og Samfylkingin 9 þingmenn. Með þessu hefði MIÐJUBANDALAGIÐ úr Reykjavíkurborg traustan þingmeirihluta til að mynda ríkisstjórn.

Flokkarnir lengst til vinstri og lengst til hægri væru þá utan þanning ríkisstjórnar. Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkurinn fengju samtals 26,5 prósent atkvæða og vinstri flokkarnir Vinstri græn, Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkur Íslands næðu stuðningi 20,5 prósenta kjósenda.

Óhætt er að segja að fylgi Vinstri grænna hafi hrunið frá því að núverandi stjórnarflokkar mynduðu vinstri stjórn árið 2017 undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur. Í kosningunum 2017 fengu Vinstri grænir 16,9 prósent atkvæða og 11 menn kjörna. Í síðustu kosningum var fylgið komið niður í 12,6 prósnet og samkvæmt þessari stóru Gallupkönnun yrði fylgi þeirra 8,6 prósent sem gæfi þeim 6 þingmenn. Katrín Jakobsdóttir hefur misst annan hvern kjósanda flokksins síns í tíð núverandi ríkisstjórnar. Það ætti að vera henni og öðrum flokksmönnum mikið umhugsunarefni.

Kjósendur kalla greinilega eftir breytingum og þá er miðjubandalagið vænlegur kostur.

- Ólafur Arnarson.