Mannorðssjálfsmorð

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sýndi á miðstjórnarfundi Framsóknar í dag að hann hefur ekkert jafnað sig í þeirri 7 vikna endurhæfingu sem hann fór í til útlanda eftir að hafa verið hrakinn úr embætti forsætisráðherra í byrjun apríl sl. Hann er ennþá í fullkominni afneitun og sér ekki neitt athugavert við eigin framkomu og aðild þeirra hjóna að Tortólasukkinu sem gerði það að verkum að hann varð að víkja annars hefði ríkisstjórnin fallið.

Hann réðist að fjölmiðlum og talaði um að framkoma þeirra gagnvart sér væri skipulögð aðför og mannorðsmorð. Strax í dag svöruðu þeir fjölmiðlar sem flettu ofnan af svindli Sigmundar, leynimakki og braski hans í skattaskjólum. Þeir bent á að það væri rangt að hann hefði ekki komist að til að gera grein fyrir sinni hlið málsins. Þeir upplýstu að honum hefðu verið gefin heil sex tækifæri til að svara en ekki séð ástæðu til að þyggja boð þeirra.

Sigmundur Davíð virðist ekki skilja sinn vitjunartíma. Hann er búinn í pólitík og ætti að sejga af sér og snúa sér að einhverju öðru. Nei, hann ætlar að sækjast eftir endurkjöri sem formaður Framsóknar og vill vera í framboði fyrir flokkinn í komandi kosningum. Samþykki flokksforystan þetta er hún meðvirk í afneitun Sigmundar Davíðs og kallar yfir sig niðurlægingu í kosningunum.

Andstæðingar Framsóknar hljóta að fagna þessum vandræðagangi heils hugar. Ekkert er betra fyrir þá en að hafa Sigmund Davíð þarna áfram þannig að flokknum verði áfram velt upp úr sukkinu kringum forystu flokksins. Auk Sigmundar Davíðs hefur framkvæmdastjóri flokksins þurft að segja af sér vegna Panamaskjalanna. Þá beinist athyglin sífellt meira að misgjörðum lykilmanna í Framsókn þó þeir séu ekki í forystu flokksins núna. Sukkið í Framsókn teygir sig langt aftur þar sem menn á borð við Finn Ingólfsson fyrrum ráðherra flokksins, Þórólf Gislason kaupfélagsstjóra og Ólaf Ólafsson koma mjög við sögu.

Sigmundur Davíð hefur fallið í þá þekktu gryfju að reyna að kenna fjölmiðlum sem flettu ofna af honum um ófarir sínar. Ávalt hefur hrokafulltum ráðamönnum – eða fyrrverandi ráðamönnum – þótt við hæfi að reyna að skjóta sendiboða vondra tíðinda.

Engin mannorðsmorð hafa verið framin í þessu máli. Miklu frekar er unnt að líta þannig á að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi framið MANNORÐSSJÁLFSMORÐ.