Lilja neitaði að mæta á sáttafundinn

Lilju Alfreðsdóttur ráðherra var boðið að koma á sáttafund með Bændasamtökunum og Vigdísi Häsler í dag en hún neitaði að mæta. Lilja lét Sigurði Inga það eftir að mæta einum til að biðjast áfsökunar og skríða fyrir þeim sem hann móðgaði með rasískum hætti í liðinni viku.

Haft er eftir einum heimildarmanni að lágt hafi verið risið á Sigurði Inga þegar hann „skreið fyrir þeim sem hann móðgaði eins og iðrandi syndari.“ Ekki skal dæmt um það hér en víst er að Vigdís Häsler segir að málinu sé lokið af sinni hálfu. En er málinu lokið af hálfu þjóðarinnar, kjósenda? Um það má stórlega efast því að engin þolinmæði finnst fyrir rasískum tilburðum áhrifafólks.

Lilja hefur sloppið nokkuð vel frá umræðunni um atburði bændafundarins þar sem hún rak fomann Bændasamtaka Íslands á dyr. Lilja hefur lýst upplifun sinni í fjölmiðlum með þeim hætti að þeir sem urðu vitni að samskiptum hennar og Gunnars Þorgeirssonar kannast ekki við.

Hún er sögð hafa ausið skömmum yfir formann Bændasamtakanna, beinlínis rekið hann á dyr og skellt hurðinni. Mönnum þykir bera nýrra við þegar varaformaður Framsóknar skellir hurðum á formann Bændasamtakanna. Margir láta segja sér slíkar fréttir oftar en einu sinni.

Áhugi var á að fá Lilju til að mæta á sáttafundinn í morgun til að biðjast afsökunar eins og Sigurður Ingi. En hún var ófáanleg til þess og lét Sigurði eftir einum og óstuddum að mæta og biðja griða.

Athygli vekur hve uppstökk Lilja er þessar vikurnar og stundum beinlínis hrokafull í framkomu. Hún hefur stundum komið þannig fram á Alþingi þegar hún hefur átt orðastað við stjórnarandstöðuna og framkoma hennar á bændafundinum vakti undrun og athygli. Vonandi nær ráðherrann betri töklum á skapsmunum sínum því að enginn græðir á hrokafullri framkomu.

- Ólafur Arnarson.