Landhreinsun

Framsóknarmenn eru farsælli en Dagfari þorði að vona. Þeir sýndu mikla skynsemi þegar þeir völdu Sigurð Inga Jóhannsson, forsætisráðherra, formann flokksins á því mikla átakaþingi sem fram fór um helgina.

 
Sigurður Ingi er maður sátta og samstöðu. Hann hefur sýnt það á þeim 6 mánuðum sem hann hefur gegnt embætti forsætisráðherra eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var hrakinn frá völdum vegna Tortólahneykslisins sl. vor. Það var mjög farsælt fyrsta skref hjá honum og Eygló Harðardóttur að hún skyldi draga framboð sitt til varaformanns til baka og rýma fyrir Lilju Dögg Alfreðsdóttur sem hefur verið í liði Sigmundar Davíðs. Með því er rétt fram sáttahönd innan flokksins sem logað hefur stafna á milli.
 
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er trúlega kominn á leiðarenda í íslenskum stjórnmálum. Dagfari harmar það ekki. Hroki og einræðistilburðir hafa einkennt allan hans feril. Með því að geyma auðæfi þeirra hjóna í skattaskjóli, fór hann á bak við flokksmenn sína, þing og þjóð. Trúnaður hans við fólkið í landinu rofnaði. Traust verður ekki keypt til baka. 
 
Tími Sigmundar Davíðs er liðinn. Hann getur ekki sagt eins og Jóhanna Sigurðardóttir á sínum tíma: “Minn tími mun koma.” Hennar tími kom. Tími Sigmundar Davíðs er liðinn og kemur ekki aftur á vettvangi stjórmálanna. Vonandi finnur hann sér annan vettvang til að starfa á og njóta sín.
 
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er maður sem efnir til ófriðar og átaka. Hann vænir fólk um svik og óheilindi ef það fylgir honum ekki að málum. Þannig stjórnmálamenn eitra út frá sér og gera stjórnmálemenninguna í landinu verri en hún þarf að vera. 
 
Í hreinskilni sagt: Það er léttir að Sigmundur Davíð skuli nú horfinn úr forystu stjórnmálaflokks. Það er landhreinslun.
 
Dagfari óskar Sigurði Inga Jóhannssyni velfarnaðar á hinu pólitíska sviði, þó Dagfari sé ekki í hópi stuðningsmanna Framsóknar. Undir forystu Sigurðar Inga ætti Framsókn heldur að ná vopnum sínum og gæti endað í 15% fylgi en hefur verið að mælast með 8-9%. Fái flokkurinn 15% í komandi kosningum, gæti það þýtt að þingmenn flokksins yrðu 10 sem hlyti að teljast varnarsigur eftir þau miklu átök sem orðið hafa í flokknum vegna misgjörða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra og fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins.