Krossar á ræningja

Magnús Kjartansson ritstjóri Þjóðviljans, alþingismaður og ráðherra var beittasta penni landsins á sínum tíma. Oft sveið undan skrifum hans, ekki síst þegar hann birti ádrepur undir nafninu Austri í blaði sínu.

Lengi var í minnum haft þegar hann gagnrýndi orðuveitingu til eins umdeildasta manns landsins í viðskiptalífinu sem sæmdur var Fálkaorðu forsetaembættisins þrátt fyrir mjög vafasama gerninga í viðskiptum. Magnús sagði þá að áður hefðu menn hengt ræningja á krossa - en nú hengdu menn krossa á ræningja.

Þetta rifjaðist upp þegar forsetinn sæmdi Katrínu í Lýsi riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu þann 17. júní.

Katrín fullyrti fyrir skömmu í blaðaviðtali að íslenska þjóðin væri í andlegri kreppu. Það var skýrt með því að fólk leyfði sér að gagnrýna sitthvað í viðskiptalífinu. Meðal annars það að hún sjálf fékk marga milljarða niðurfellda af skuldum án þess að fórna neinu sjálf.

Dagfari vék að þessu nýlega og í nýjum leiðara Stundarinnar segir orðrétt um þessa \"andlegu kreppu\" Katrínar:

\"Katrín gaf sjálf ástæðu til að rýra atvinnu-og þjóðarstolt þegar fyrirtæki hennar, Hnotskurn ehf., sem átti Lýsi hf., fékk afskrifaðar tæplega 3 milljarða króna skuldir. Hún hafði þá selt vinkonu sinni Lýsi hf. út úr félaginu daginn eftir að neyðarlögin voru sett á, en keypti það síðan aftur á góðum díl.

Þetta einkahlutafélag Katrínar hafði fengið lán í Glitni til að kaupa í FL Group, en hún var einmitt stjórnarmaður í Glitni þegar hún fékk lánið, sem hún borgaði síðan ekki, og forðaði síðan Lýsi undan.\"

Fálkaorðan er veitt fyrir afrek eða stórmerkileg störf. Fróðlegt væri að vita hvort orðunefnd hafi verið kunnugt um þessa vafasömu gjörninga og vafninga Katrínar og um þriggja milljarða afskrift lána frá banka sem hún var stjórnarmaður í þegar ákveðið var að heiðra hana með orðu.

Hafi sú vitneskja verið orðunefnd kunn, þá verður að ætla að nefndin líti á fjárglæfrastarfsemi af þessu tagi sem afrek.

Skelfing verður Katrín Pétursdóttir fálkaleg ef hún skreytir sig við opinber tækifæri með þessari óverðskulduðu orðu.