Kári stelur senunni og stillir Svandísi upp við vegg

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sló í gegn á útifundi strandveiðisjómanna í gær þar sem framkomu Svandísar Svavarsdóttur var mótmælt harðlega. Öllum að óvörum hefur Kári blandað sér í umræður um strandveiði og fiskveiðistjórnun á Íslandi þannig að eftir er tekið. Hann var ræðumaður á sjómannadeginum í Grindavík fyrir nokkrum vikum og talaði þar alveg tæpitungulaust eins og við var að búast.

Nú bætir hann um betur með því að leggja sjómönnum lið í mótmælum þeirra um helgina. Þegar Kári Stefánsson talar er hlustað. Hann er einn allra merkasti vísindamaður þjóðarinnar og þorir að gagnrýna hvern sem er. Ráðherrar eru engin undantekning, nema síður sé. Kári snupraði Svandísi Svavarsdóttur, ráðherra matvæla, og sýndi fram á að hún er ekki að vinna vinnuna sína. Sama gildir um þingheim allan sem á að setja okkur nothæf lög, bæði á sviði sjávarútvegsmála og annarra málaflokka.

Vandi Svandísar eykst jafnt og þétt. Hún virðist hafa tekið ákvörðun um stöðvun hvalveiða í einhverju frekjukasti og sýnt hefur verið fram á að hún hefur trúlega brotið lög, starfsreglur, jafnvel stjórnarskránna, að ekki sé talað um svonefnda meðalhófsreglu sem var þverbrotin með því að stöðva veiðar einungis sólarhring áður en þær áttu að hefjast. Samstarfsflokkar Vinstri grænna í ríkisstjórninni eru trylltir út af þessu og það hriktir í stjórnarsamstarfinu. Með því að hafna óskum strandveiðisjómanna algerlega bætist enn myndarlega í óvinaher Svandísar sem komin er alveg upp að vegg.

Kári Stefánsson sagði í ræðu sinni á Austurvelli að hann væri gamall sósíalisti og hefði aldrei horfið frá þeirri hugsjón. Með því gæti hann hafa verið að senda Svandísi Svavarsdóttur harða gagnrýni því að efling strandveiða ætti að vera í anda sósíalismans enda er tekist á um skiptingu auðlindarinnar á milli smærri aðila og stórútgerða auðmanna sem fengið hafa stærstan hluta fiskveiðiauðlindar landsmanna upp í hendurnar fyrir nánast ekki neitt. Auðvitað má spyrja hvort Svandís eða Katrín Jakobsdóttir muni nokkuð lengur eftir sósíalisma þegar þær virðast einungis hugsa um að halda sjálfum sér við völd á ráðherrakjörum.

Þótt Kári hafi um árabil verið einn tekjuhæsti stjórnandi landsins, hefur hann samt aldrei snúið baki við grunnhugsun sinni í pólitík, sósíalismanum. Hann bendir ávallt á að hinir tekjuháu greiði mest til sameiginlegra þarfa þjóðarinnar í formi útsvars og tekjuskatta.

Gamli sósíalistinn hefur einnig sent ýmsum jafnöldrum sínum og samferðamönnum vænar sneiðar með því að hafa skapað mörg hundruð störf með frumkvöðulsstarfi sínu hjá Íslenskri erfðagreiningu á meðan helstu talsmenn frjálshyggjunnar hafa einungis verið styrkþegar og þiggjendur. En aldrei lagt einkaframtakinu neitt til sjálfir.

- Ólafur Arnarson