„Íslandsvinur“ varar við hættu á heimsstyrjöld

Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði í gærkvöldi að raunveruleg hætta sé á að þriðja heimsstyrjöldin brjótist út. Með þessu hótar hann þjóðum heims og segir að heimsbyggðin skuli ekki vanmeta hættuna. Þetta kom fram í fjölmiðlum fyrr í dag.

Davíð Oddsson hefur kallað Lavrov þennan „Íslandsvin“. Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 13. febrúar á þessu ári greindi Davíð frá fundi sem hann átti með Lavrov á vettvangi Norðurskautsráðsins á 2005 þegar Davíð var á leið út úr stjórnmálum og gegndi embætti utanríkisráðherra um skeið. Tímann á þeim vettvangi notaði Davíð einkum til að skipa fjölda flokksfélaga sinna í sendiherraembætti víða um heim sem frægt er orðið.

Í Reykjavíkurbréfinu varð honum tíðrætt um það hve elskulegur Sergey Lavrov hafi verið í viðkynningu og hve mikinn og jákvæðan áhuga hann hafi haft á Íslandi og tilteknum íslenskum embættismönnum. Eftir fremur væmið mjálm um þennan mann kom svo niðurstaða Davíðs Oddssonar: „Það var ekki hægt annað en að falla prýðilega vel við Lavrov.“

Og svo kom rúsínan í pylsuendanum: „Þeir leynast víða Íslandsvinirnir……………..“

Nokkrum dögum eftir þessa jákvæðu einkunnargjöf Davíðs Oddssonar hóf Pútín og hægri hönd hans í stjórnsýslu Rússlands, Íslandsvinurinn Lavrov, þjóðarmorðið í Úkraínu.

Já, Íslandsvinirnir leggja gjörva hönd á margt. Þeir sem eiga vini á borð við Lavrov þurfa ekki á óvinum að halda!

- Ólafur Arnarson.