Hverra er skömmin?

Margir anda léttar þegar verslunarmannahelgin er liðin, mesta sukkhátíð landsmanna þar sem alltaf verða slys, nauðganir og óafturkræfir atburðir.

 
Tekist hefur verið á um upplýsingagjöf lögreglustjórans í Vestmannaeyjum sem fer sínar eigin leiðir og heldur leyndum skelfilegum atburðum til að vernda ímynd þjóðhátíðar í Eyjum – þar til henni er lokið. Páley Borgþórsdóttir hagar sér með allt öðrum hætti en aðrir lögreglustjórar landsins, gegn vilja ríkislögreglustjóra og yfirvalda. Hún kemst upp með það vegna þess samtryggingarkerfis sem ríkir í Vestmannaeyjum þegar kemur að þessari mestu sukkhátíð landsins. Auðvitað ætti að víkja henni úr starfi.
 
Það eru peningar sem ráða. Eyjamenn standa saman um fjáröflun fyrir íþróttir í Eyjum og þá er einskis svifist. Allir standa saman um þöggun í þágu fjáröflunar eða eigum við frekar að segja í þágu fjárplógsstarfseminnar?
 
Óttar Guðmundsson læknir skrifar merka grein sem birtist í Fréttablaðinu þann 30. júlí. Hann ræðir um skömmina og hver beri hana þegar fólki er nauðgað og því misþyrmt. Hann gerir þöggun lögreglustjórans í Vestmannaeyjum að umtalsefni og segir svo:
 
“Í þessari umræðu er gengið út frá því að um hverja verslunarmannahelgi sé nokkrum nauðgað, margir lamdir til óbóta og þjófar og fíkniefnasalar leiki lausum hala. Það er reyndar ósköp eðlileg ályktun. Ég var á árum áður læknir á tveimur eða þremur útihátíðum og fékk að sannreyna allt ruglið, bullið og hryllinginn sem fjölmiðlar skýra ekki frá.”
 
Hann segir að á þessum útihátíðum sé ætlast til þess að fólk drekki sig ofurölvi alla dagana frá morgni til kvölds. Bætir svo við: “Gróðinn er gífurlegur og auglýsingamennskan háþróuð.”
 
Óttar Guðmundsson læknir bendir á að þolendur vilji vísa skömminni heim til gerandans en segir svo: “En hvernig væri að láta skömmina ganga til þeirra sem bera ábyrgð á þessum fjöldasamkomum?”
 
Dagfari tekur undir það að ábyrgðin er hjá þeim sem standa fyrir þessum ómenningarlegu og ómannúðlegu samkomum. Það þarf að beina athyglinni að þeim. Vilji landsmenn raunverulega koma í veg fyrir nauðganir og ofbeldi, þá ættu þeir að taka höndum saman um að sniðganga svona samkomur og beina athyglinni að þeim sem standa fyrir þessu ár eftir ár þrátt fyrir nauðganir, ofbeldi og viðbjóð í skugga stórdrykkju og eiturlyfjaneyslu.
 
Þó samkomur af þessu tagi séu víða, eins og á Siglufirði, Akureyri og Ísafirði, þá jafnast ekkert á við þjóðhátíðina í Vestmannaeyjum sem rekin er af meiri hörku og ósvífni an tíðkast á öðrum stöðum. Það hefur gengið þannig ár eftir ár, áratug eftir áratug. Talið er að gróðinn af hátíðinni í ár geti numið 200 milljónum króna. En hvað kostar það þjóðfélagið að taka við skemmdum einstaklingum eftir nauðgangir og slys á hverju ári? Ekki borga Vestmannaeyjingar það. Þjóðin ber þann skaða en ÍBV græðir.
 
Byrjum á að skera upp herör gegn þjóðhátíðarsukkinu. Hitt getur komið á eftir.