Hvar er jón baldvin?

Eftir nýjustu fréttir af forsetaskaupinu, hljóta menn að spyrja: Hvar er Jón Baldvin Hannibalsson? Það vantar nú ekkert annað en að hann fari í framboð til að kóróna vitleysuna endanlega.

Kæmi Jón Baldvin fram á síðustu stundu, þá væru þeir allir saman á sviðinu þrír fulltrúar gamalla tíma. Þeir menn sem haldnir eru mestri valdasýki sinnar kynslóðar. Ljóst er að þeir Ólafur Ragnar, Davíð og Jón Baldvin eru með ólæknandi athyglissýki á lokastigi. Þeim verður ekki bjargað úr þessu. Tveir af þeim þremur hafa nú ákveðið að verða sér til háðungar á næstu vikum og munu ekki gera annað en niðurlægja sig og stimpla sig endanlega út úr þjóðfélagsumræðunni á Íslandi. 

Þeir eru að skrifa lokakaflann í sögu sinni undir fyrirsögninni: Dramb er falli næst.

Það vantar bara Jón Baldvin Hannibalsson inn í hringinn því hann er svo keimlíkur hinum tveimur. Hann verður að fá að vera með í þessari mestu sneypuför í seinni tíma pólitík á Íslandi. Hann verðskuldar það.

Annars er ekki hægt að lýsa framboði Davíðs Oddssonar betur en Jónas Kristjánsson gerir á vef sínum undir fyrirsögninni: Davíð sturlar pólitíkina. Jónas segir orðrétt:

“Það kórónar sturlun íslenzkra þjóðmála að persónugervingur hrunsins bjóði sig fram til forseta Íslands. Maðurinn, sem framkallaði eftirlitsleysi með bönkum, þegar hann var forsætisráðherra. Maðurinn, sem skóf allan gjaldeyri innan úr Seðlabankanum daginn fyrir hrunið. Maðurinn, sem Time Magazine skilgreindi sem einn 25 helztu gerenda alþjóðakreppunnar 2008. Davíð Oddsson vill nú þar á ofan verða forseti Íslads. Í samkeppni við annan gaur af svipuðum toga siðblindu og samvizkuleysis. Þar hittir andskotinn ömmu sína, ég man ekki, hvor þeirra notaði orðið “skítlegt eðli” um hugarfar hins. Nú býð ég ekki í kjósendur vora.”

Góðu fréttirnar eru þær að þann 1. ágúst 2016 verður dr. Guðni Th. Jóhannesson settur inn í embætti forseta Íslands.