Dag hvern eru sagðar fréttir af því hversu oft og lengi umræður hafi staðið þann daginn um fundarstjórn forseta Alþingis. Það er ekki svo að gerð sé ein athugasemd á dag heldur standa slíkar umræður með ákveðnum hléum tímunum saman, dag eftir dag og viku eftir viku.
Ekkert eitt efni hefur verið rætt jafn oft á Alþingi að undanförnu.
Ef þessar umræður spyrðust út fyrir landsteinana myndu útlendingar sem ekki þekkja til íslenskrar umræðuhefðar tæpast geta ætlað annað en forseti Alþingis Íslendinga væri harðsvíraðasti málfrelsiskúgari norðan Alpafjalla að minnsta kosti.
Í öllum þessum fréttaflutningi af athugasemdum við fundarstjórn forseta Alþingis hefur hins vegar ekki í eitt einasta skipti verið frá því greint að forseta hafi skjöplast svo í stjórn sinni á löggjafarsamkomunni að tilefni hafi verið til að fetta fingur út í störf hans. Samt tala þingmenn sig hása um fundarstjórn hans.
Hvað ætli þeir erlendir menn sem kunna að hafa heyrt um þessar þrotlausu athugasemdir við fundarstjórn forseta haldi um andlegt ástand þjóðarinnar ef þeim yrði sagt að stjórnarandstaðan ætti í raun og veru ekkert sökótt við þingforsetann?
Talsmenn stjórnarandstöðunnar gefa þá skýringu að þeir þurfi að hagnýta sér öll þau ráð sem þingsköp leyfa til þess að geta með hreinni samvisku sagt við kjósendur sína að allt hafi verið gert til að stemma stigu við óhæfuverkum ríkisstjórnarinnar. Það er gott og blessað en skýrir ekki endalausar umræður um fundarstjórn forseta.
Brot á þingskapalögum
Málþóf er þekkt í flestum þjóðþingum en þó í ríkari mæli hér en annars staðar. Núverandi ríkisstjórnarflokkar geta illa kvartað undan því. Þegar horft er aftur í tímann til síðasta kjörtímabils dylst engum að þeir voru þá í stjórnarandstöðu fullir jafnokar stjórnarandstöðunnar nú í þessum efnum.
Hvað sem líður slæmum fordæmum er kjarni málsins þó sá að gagnrýni á ríkisstjórn ber stjórnarandstöðu á hverjum tíma að beina að henni sjálfri en ekki forseta Alþingis. Það er einfaldlega ómálefnalegt að gagnrýna þingforseta fyrir gerðir ríkisstjórnarinnar.
Þar að auki er það beinlínis brot á þingskapalögum að nota heimild til að gera athugasemd við stjórn forsetans til þess að ræða önnur efni eins og þau hvað mönnum finnst um mál ríkisstjórnarinnar. Afstaða manna til þingskapa má ekki ráðast af því hver skoðun þeirra er á ríkisstjórn hvers tíma. Að réttu lagi ætti þingforseti að skrúfa fyrir þessi lögbrot.
Með öllu er ómálefnalegt að gagnrýna þingforseta fyrir að taka á dagskrá mál sem ríkisstjórnin leggur áherslu á. Það væri ekki aðeins andstætt hefð ef forseti virti meirihlutann að vettugi heldur þýðingarlaust því meirihlutinn getur alltaf ákveðið dagskrá þingfunda með atkvæðagreiðslu.
Þegar stjórnarandstöðu þykir mikið liggja við er ekki unnt að hallmæla henni fyrir málþóf innan þeirra marka sem þingsköp leyfa. En sú misbeiting þingskapa að gera athugasemdir við stjórn forseta á þinginu þegar tilefnið er málefnaleg deila við ríkisstjórnina á ekki að líðast.
Jafnvel lítið orð getur orðið stórt og þungt
Annars er kollótt pólitísk umræða ekki neitt nýmæli. Um það vitnar grein eftir Halldór Laxness frá 1950 sem hann birti í bók sinni Dagur í senn. Það var á þeim tíma þegar pólitísk dagblöð endurspegluðu umræður á Alþingi. Þar segir skáldið:
„Stjórnmálaumræður hér eru oftastnær einna líkastar og þegar hundur er að elta hrafn, en slíkt er einna saklausust skemtun á jörðu, hefur víst aldrei komið fyrir í dýrafræðinni að hundur hafi náð hrafni. Það er eitt dæmið um ástríðuleysið í stjórnmálaumræðum okkar að blaðamenn skuli endast til þess, sumir hverjir frammá gamals aldur, að kalla hver annan fífl, fant, ræksni, ræfil, bófa, bjálfa og öðrum þessháttar fúkyrðum.“
Skáldið hafði svo sínar hugmyndir um hvers kyns stjórnmálaumræðu hann vildi sjá og heyra:
„Ég mæli með hressilegum skeleggum stjórnmálarökræðum, þar sem jafnvel lítið orð getur orðið stórt og þúngt af því að standa á stað sem er rétt undirbúinn sálfræðilega í meginmálinu. Þetta er því miður sjaldgæft í rökræðum hér á Íslandi, svo sjaldgæft að landsfólkinu getur orðið snarbilt við ef fyrir kemur að orð hittir í mark.“
Þessar athugasemdir skáldsins eiga enn fullt erindi til okkar þó nokkuð sé um liðið að þau voru færð í letur.