Heiðrum þá

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta er svo sannarlega búið að gleðja landsmenn að undanförnu með sögulegum afrekum sínum í Frakklandi.

Að komast á EM í knattspyrnu var stórkostlegur árangur í sjálfu sér. Að tapa ekki leik í riðli sínum og ná þar öðru sæti var enn stærra. Og að hafa náð alla leið í sextánliða úrslit er stórsigur hvernig sem leikurinn við England fer.

Leikmenn og þjálfarar íslenska landsliðsins eru hetjur. Þeir þurfa ekki að sanna neitt frekar um það. Þeir eru samt örugglega ekki hættir og þeir munu selja sig dýrt gegn Englandi í Nice á mánudagskvöldið.

Fráfarandi forseti og nýkjörinn forseti verða báðir viðstaddir leikinn. Það sýnir þá miklu virðingu sem landsliðið nýtur meðal þjóðarinnar.

Virding við þá er verðskulduð. Nú þarf að sýna það í verki með því að sæma alla leikmenn liðsins og báða þjálfarana fálkaorðunni. Gildir einu hvort það verður eitt af síðustu embættisverkum Ólafs eða eitt af fyrstu verkum Guðna.

Fálkaorðuna verðskulda þeir nú þegar.