Hefst nú 110 daga sumarfrí þingmanna og stóllaus Guðrún fær ráðherrastól

Alger samstaða virðist ríkja um það á Alþingi að drífa þingheim bara í 110 daga sumarleyfi og vera ekki að lengja þingstörfin neitt frekar þótt fjöldi óleystra mála bíði afgreiðslu.Vinnubrögð þingsins eru fyrir neðan allar hellur.

Samstaða er milli stjórnar og stjórnarandstöðu um að leggja ekki of mikið á þingmenn og leyfa þeim að gera eitthvað annað en sinna þeim störfum sem þjóðin borgar þeim fyrir – um það bil eina og hálfa milljón á mánuði og upp í tvær og hálfa milljón á mánuði. En þeir virðast vilja vera sem minnst við störf sín í þinginu. Þannig var jólaleyfi þingsins 37 dagar, þá var tekið langt páskaleyfi og nú er þingið komið í 110 daga sumarleyfi fram á haust. Óskiljanlegt er að stjórnarandstaðan skuli ekki krefjast þess að þingið starfi í nokkrar vikur í viðbót til að freista þess að reyna að ljúka við einhver af þeim brýnu málum sem bíða úrlausnar.

Ríkisstjórnin birtist í byrjun þessarar viku með „úrræði“ sín til að hemja þá óðaverðbólgu sem hún hefur horft aðgerðarlaus á stigmagnast samhliða ákvörðunum Seðlabanka Íslands um sífellt hærri okurvexti.

Loksins þegar útspilið kemur er það veikt og ómerkilegt og alls ekki til þess fallið að breyta neinu. Ríkisstjórnin var fyrst og fremst upptekin af því að tekjuhlið fjárlaga liti betur út en áætlað var. Tekjur munu hækka um heila 90 milljarða og látið er í veðri vaka að það sé allt ráðherrum stjórnarinnar að þakka! Skýringin er einföld. Ríkissjóður fær meiri skatttekjur í formi virðisaukaskatts vegna þess að eyðsla og neysla er meiri en áætlað var. Minna var talað um hækkun ríkisútgjalda sem stafa bæði að áframhaldandi útþenslu ríkisbáknsins og vegna verðlagshækkana.

Ráðstafanir þær sem kynntar voru í byrjun vikunnar eru léttvægar og sumar þegar fram komnar og því engin viðbót. Flestum ber saman um að verðbólga muni ekki lækka neitt vegna þessa.

Alþingi fer nú í 110 daga leyfi í skugga þess að kjósendur hafa í vaxandi mæli snúið baki við ríkisstjórnarflokkunum, en fylgið er komið niður í 35 prósent samkvæmt nýjustu könnunum. Flokkur forsætisráðherrans er á góðri leið með að þurrkast út af Alþingi, fylgið mældist ekki nema 5,6 prósent í síðustu könnun Gallups. Hvergi á Vesturlöndum yrði það látið viðgangast að forsætisráðherra kæmi úr flokki sem hefur nær engan stuðning á bak við sig. En hér á landi virðist það vera bara í góðu lagi. Enda er svo margt einkennilegt á Íslandi. Til dæmis þekkist það hvergi í nágrannalöndum okkar að vextir séu hærri en hitastigið eins og er reyndin hér á landi um þessar mundir!

Svo virðist sem stjórnmálamannastéttin á Íslandi sé við það að gefast upp á að sinna því hlutverki sem hún var valin til og gaf kost á sér til að sinna. Þessi löngu frí frá störfum Alþingis bera því glöggt vitni. Hver mundi ekki þiggja 37 daga jólaleyfi á fullum launum og 110 daga sumarfrí? Þegar litið er yfir liðinn þingvetur er fátt sem vekur athygli nema þá helst hik og hægagangur ríkisstjórnarinnar sem hefur ekki tekið á þeim vandamálum sem allir sjá að bíða lausnar.

Ein af skýringunum er sú að ríkisstjórnarflokkarnir geta ekki komið sér saman um meginmál. Sjálfstæðisflokkurinn og hinir hratt hverfandi Vinstri grænir eru á öndverðum meiði um flest og beita neitunarvaldi sitt á hvað og þá gerist ekki neitt. Samstarf þessara flokka gengur auðvitað ekki upp og það verður æ ljósara.

Dapurlegt er til þess að hugsa að einna eftirminnilegast frá liðnum þingvetri er vandræðagangur Sjálfstæðisflokksins vegna þess hvernig skipað er í þau ráðherrasæti sem flokkurinn hefur til umráða. Guðrún Hafsteinsdóttir, þingmaður flokksins í Suðurkjördæmi, hefur reglubundið kvartað undan því að hún fái ekki að vera ráðherra eins og hún telur að formaður flokksins hafi lofað henni. Guðrún hefur nú setið á þingi í 18 mánuði og ekki látið til sín taka í neinu máli. Hennar er einungis minnst fyrir að banka stöðugt upp á hjá formanninum og segja eitthvað á þessa leið: „Manstu ekki eftir mér? Ég á að fá að verða ráðherra.“

Bjarna Benediktssyni er vorkunn. Hann sagði á sínum tíma að Guðrún fengi að verða dómsmálaráðherra. Vandinn er bara sá að Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, er sá af ráðherrum flokksins sem hefur látið mest til sín taka auk þess sem hann hefur stutt Bjarna með ráðum og dáð alla tíð. Á formaðurinn að fórna helsta stuðningsmanni sínum gegn einbeittum vilja hans, á hann að svíkja Guðrúnu, á hann að hætta sjálfur og rýma til í ráðherraliði flokksins eða á hann bara að skella sér út í sumarið og sjá til?

Enginn þessara kosta er góður. En þessi ráðherrasirkus í kringum ísdrottninguna úr Hveragerði hefur gengisfellt bæði hana og ráðherratitilinn sem hún hlýtur að fá fyrr en síðar. Bjarni hefur haft hana á ís í nokkra mánuði og víst er að þessu máli verða gerð góð skil í næsta áramótaskaupi. Það er einfaldlega þannig vaxið.

- Ólafur Arnarson.