Guðrún sett á ís

Vefurinn Mannlíf segir frá því að Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hóti því að segja af sér þingmennsku verði hann settur af sem ráðherra til að hleypa Guðrúnu Hafsteinsdóttur að. Verði það raunin tæki Arnar Þór Jónsson sæti hans á Alþingi en hann er fyrsti varaþingmaður flokksins í Kraganum.

Arnar Þór er lögmaður og fyrrverandi dómari. Hann hefur ekki farið dult með skoðanir sínar sem eru lengst til hægri. Hann ætti að margra mati betur heima í Miðflokknum og mun rugla þingflokk sjálfstæðismanna í rýminu þegar hann kemur þangað inn.

Ekki bætti úr skák að hann sendi forystu flokksins tóninn í liðinni viku vegna afstöðu hennar til tilskipunar frá ESB og vændi hana um svik. Lagði til að forystan segði af sér og breytti nafni flokksins í FLOKKURINN í stað þess að heita Sjálfstæðisflokkurinn.

Þetta gæti gert það að verkum að Bjarni Benediktsson geti ekki misst Jón Gunnarsson af þingi og verði því að halda óbreyttri ráðherraskipan. Með því yrði Guðrún Hafsteinsdóttir ÁFRAM HÖFÐ Á ÍS.

Tillaga Arnars Þórs Jónssonar varaþingmanns um breytingu á nafni Sjálfstæðisflokksins minnir á kuldalegar kveðjur Ögmundar Jónassonar í bók sinni fyrir rúmu ári þegar hann lagði til að gamli flokkurinn hans breytti um nafn. Hann sagði eitthvað á þá leið að Vinstri hreyfingin grænt framboð bæri ekki lengur það nafn með rentu.

Flokkurinn væri ekki lengur til vinstri eftir banvænt faðmlag við Sjálfstæðisflokkinn, alls ekki grænn og ekki lengur hreyfing eftir afgerandi og ítrekað fylgistap.

FRAMBOÐ væri réttnefni – enda snerist starfsemin einungis um að tryggja tímabundna valdastöðu Katrínar og hennar þrönga hóps.

- Ólafur Arnarson.