Guðmundur ætti að fagna en ekki kvarta

Ísland vann góðan sigur á Austurríki í handbolta karla og kemst því á HM í janúar 2023. Öruggir sigrar bæði úti og heima, eins og vonir stóðu til, enda er landslið Íslands nú skipað frábærum leikmönnum sem leika með sumum af bestu liðum heims. Ný gullöld er að renna upp í handbolta karla á Íslandi í anda þess þegar Ólafur Stefánsson fór fyrir sigursælasta liði Íslandssögunnar.

Eftir sigurinn á Austurríki hér heima fór landsliðsþjálfarinn, sem hefur sannað sig sem einn bestir þjálfari í heimi, í viðtöl við fjölmiðla en gat ekki fagnað vegna þess að hann taldi sig þurfa að kvarta undan því að ekki væri til þjóðarhöll hér á landi sem gæti hýst stórleiki. Þykist Guðmundur ekki vita að vatnstjón varð í Laugardalshöll á síðasta ári sem varð til þess að ekki hefur verið unnt að stunda þar íþróttir á meðan gagngerar endurbætur hafa farið þar fram, auk þess sem einhverjar tafir urðu vegna þess að höllin var nýtt í bólusetningar gegn Covid? Viðgerðum lýkur í sumar og þá verður höllin eins og ný með fullkomnustu lýsingu, nýju parketgólfi, endurgerðum búningsklefum, endurbættu anddyri og stækkaðri salernisaðstöðu fyrir áhorfendur.

Ekki verður aukið við fjölda sæta fyrir áhorfendur enda seljast nær aldrei upp þessi 3.000 sæti sem eru í boði, hvorki á landsleiki í handbolta, körfubolta né í öðrum greinum. Vandséð er til hvers ætti að tryggja tilveru fleiri auðra sæta á stórleikjum.

Allt tal um byggingu nýrrar þjóðarhallar í Laugardal er ekki annað en tilraun stjórnmálamanna til að vekja á sér athygli í aðdraganda kosninga. Á það einkum við um ráðherra Framsóknar sem hafa svo ekki tryggt neina fjármuni til verksins samkvæmt fjármálaáætlun ríkisins til næstu fimm ára.

Borgin er tilbúin með það sem að henni snýr en ríkið er ekki með nýja höll á dagskrá næstu fimm árin – enda verður engin þörf fyrir hana þegar endurgerð Laugardalshöll verður tilbúin til notkunar eftir nokkra mánuði.

Engin „þjóðarskömm“ er fyrir 380 þúsund manna dvergþjóðina Ísland að spila landsleiki sína þar við bestu aðstæður.

- Ólafur Arnarson