Gott að vera á Alþingi – 37 daga jólafrí

Fjasað hefur verið um það að einhverjar ríkisstofnanir hafi lokað milli jóla og nýjárs - í heila fjóra daga. Morgunblaðið birti heilan leiðara um að ekki hafi tekist samstaða um það í borgarstjórn Reykjavíkur að halda fund þann 3. janúar næst komandi. Lítur blaðið á það sem merki um stjórnleysi í borginni, sem virðist reyndar að mati þess hafa verið algert alveg frá árinu 1991 þegar ritstjóri blaðsins hljóp út úr forystuhlutverki þar á bæ áður en skriðan féll.

Í ljósi þess að rætt er um að ríkisstofnanir hafi tekið sér lengra jólaleyfi en þessa fáu frídaga, er vert að beina athygli að sjálfu Alþingi. Þar starfa 63 þjóðkjörnir fulltrúar. Enginn þeirra ber minna úr býtum í launum en eina og hálfa milljón króna á mánuði. Það þykja mjög góð starfskjör í þjóðfélagi okkar. Þorri landsmanna nær þeim ekki og er reyndar víðsfjarri slíkum launum.

Á Alþingi lauk þingstörfum föstudaginn 16. desember og þá fóru þingmenn í jólaleyfi. Hvenær koma þeir svo til starfa að nýju? Ekki fyrr en mánudaginn 23. janúar, það er að segja eftir 37 daga frí! Þeir munu vafalaust vísa til þess að þeir muni nota tímann til að „hitta kjósendur heima í héraði“, sem er þekkt setning. Þeir sem eru komnir yfir miðjan aldur vita að heimsóknir í hérað heyra til síðustu aldar. Nú búa flestir þingmenn á höfuðborgarsvæðinu eða í klukkutíma akstursfjarlægð frá borginni. Með fáeinum undantekningum.

Kjósendur fárast ekki mikið yfir þessu. Þetta virðist vera lögmál. Samstaða er á þingi um að hækka framlög til stjórnamálaflokka. Skýring: Lýðræðið. Þingið stendur saman um að viðhalda Rúv og hætta ekki við auglýsingastarfsemi þar eins og tíðkast í öðrum löndum. Skýring: Hræðsla við lýðræðið og skoðanafrelsið.

Stjórnsýsla á Íslandi er sífellt gagnrýnd en það breytir engu. Til verða nýjir flokkar eins og Flokkur fólksins og Píratar en þeir ná ekki að breyta neinu – með þó einni undantekningu, sem er reyndar mjög mikilvæg; Píratar mynda meirihluta í Reykjavíkurborg. En valdakerfið heldur sinni stöðu. Um það virðist vera samstaða flestra flokka. Því miður.

Spyrja má hvort forstjórar bestu fyrirtækja landsins taki sér 37 daga jólafrí. Örugglega ekki.

Bankastjórar Landsbanka, Íslandsbanka og Arionbanka eru meira og minna við störf milli jóla og nýárs og strax í byrjun janúar. Einnig forráðamenn stórfyrirtækja í verslun, þjónustu, sjávarútvegi og ferðaþjónustu, svo eitthvað sé nefnt.

Meira og minna allir eru á fullu – nema Alþingismenn sem voru valdir til að stjórna ríkinu en ferst það ekki vel úr hendi. Þeir taka sér 37 daga hvíld. Var þörf á því. Voru þingmenn þreyttari en fólk á vinnumarkaði í lok árs?

Raunar segja sumir að mestur ógæfudagur bandarísku þjóðarinnar hafi verið dagurinn sem loftkælingarkerfi var komið fyrir í bandaríska þinghúsinu í Washington. Fram til þess hafði þingið nefnilega einungis getað starfað hálft árið vegna mikils hita á sumrin. Einhverjir telja það hagfelldara almenningi að hafa þingmenn aðgerðalausa en að störfum, en það er annað mál.

Nú mætti hins vegar vitna í Hallgrím Pétursson og Passíusálmana: Það sem höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það.

Sukkið kemur að ofan.

- Ólafur Arnarson