Getur fólkið ekki bara borðað ístertur?

Marie Antoinette er sögð hafa spurt hvort fólkið gæti ekki bara borðað kökur þegar ekkert brauð var að fá og franskur almenningur svalt heilu hungri. Þetta mun ranghermt en ekki losnar hún samt við að vera eignuð þessi orð.

Þetta gerðist á ofanverðri 18. öld í Frakklandi. Síðan eru liðin mörg ár, meira en tvær aldir.

Nú virðist Marie Antoinette hins vegar hafa eignast verðugan keppinaut um það hver sé í minnstum, eða nánast engum, tengslum við veruleika almennings í sínum samtíma.

Ísdrottningin úr Hveragerði, Guðrún Hafsteinsdóttir, sem bíður, og bíður og bíður, spennt eftir því að verða ráðherra, er fyrsti flutningsmaður frumvarps sem lagt hefur verið fram á Alþingi um að foreldrar geti greitt börnum sínum fyrirfram arf að fjárhæð 10 milljónir, undanþegið erfðafjárskatti.

Við búum í landi þar sem foreldrar hafa margir hverjir ekki efni á tannréttingum fyrir börn sín. Stjórnvöld heykjast meira að segja á því að greiða fyrir bráðnauðsynlegar aðgerðir fyrir börn sem fæðast með skarð í vör og gómi.

Persónufrádráttur hefur engan veginn haldist í hendur við verðlag eða laun í landinu frá því staðgreiðsla var tekin upp, 1987. Í upphafi dugði persónufrádrátturinn til þess að engin staðgreiðsla var greidd af lægstu launum. Flokkur Guðrúnar Hafsteinsdóttur hefur ráðið fjármálaráðuneytinu nær allan þennan tíma. Í dag byrjar fólk að borga staðgreiðslu áður en laun þess duga fyrir leigunni á niðurníddri og myglaðri kompu undir súð.

Neyðarástand er á íslenskum húsnæðismarkaði og ungt fólk og efnaminna er háð duttlungum leigumarkaðar. Skortur er á húsnæði og verð allt of hátt. Ekki sér fyrir endann á því. Enn fremur er fjármögnunarkostnaður á húsnæði og öðru hér á landi út úr kortinu fyrir þá sem eru skikkaðir til að lifa í krónuhagkerfinu.

Við þessar að stæður finnst væntanlegum ráðherra brýnasta málið að leggja fram frumvarp sem er til þess eins ætlað að hygla hinum efnameiri umfram almenning í landinu. Væntanlegum ráðherra Sjálfstæðisflokksins til upplýsingar má geta þess að einungis hinir efnameiri í landinu eru í stakk búnir að reiða fram 10 milljónir í reiðufé í fyrirframgreiddan arf til barna sinna.

Margar fjölskyldur í landinu eiga einhverja tugi milljóna, kannski 100 milljónir, í eigið fé en hjá venjulegu fólki, sem ekki skipar sér í hóp hinna efnameiri, er þetta eigið fé bundið í íbúðarhúsnæði þess eða lífeyrissparnaði sem ekki er hægt að breyta í reiðufé sisona.

Hliðarafleiðing þess að ríka fólkið fái að borga út skattfrjálsan arð til barna sinna er svo að almennir fyrstu kaupendur og efnaminna fólk lokast enn frekar úti á fasteignamarkaði en þegar er raunin vegna þess að vitanlega eykur þetta eftirspurn á markaðnum og keyrir húsnæðisverð enn hærra.

Í frumvarpinu er lagt til að þessi fjárhæð kyrfilega verðtryggð þannig að algerlega sé hægt að treysta því að hún haldi verðgildi sínu. Vitanlega er það forgangsmál, nema hvað. Vitaskuld er það mikilvægara en að persónufrádráttur sé verðtryggður eða greiðsluþátttaka ríkisins í heilbrigðisþjónustu, eins og til dæmis tannréttingum og þjónustu sérfræðilækna.

Segjast verður að raunar er gott að sjá hver forgangsröðun ráðherrans í bið er. Fólk veit þá hvers það getur vænst frá viðkomandi úr ráðherrastóli. Hreinskilni af þessu tagi er fáheyrð í stjórnmálum.

Kannski verða það örlög væntanlegs dómsmálaráðherra að sagan leggi henni þau orð í munn að hafa spurt hvort fólkið gæti ekki bara borðað ístertur þegar hart er í ári. Þetta eru ekki hennar orð. Marie Antoinette spurði víst heldur aldrei að því hvort fólkið gæti ekki bara borðað kökur í hungursneyðinni í Frakklandi á 18. öld.

Einhvern veginn er samt hægt að túlka orð þeirra með þessum hætti.

- Ólafur Arnarson