Fyrrum forsætisráðherra 75 ára – hefði hann verðskuldað hátíð?

Hátíð á stórum tímamótum manns sem setti svip sinn á þjóðfélagið á síðustu öld? Já, alveg má hugsa sér það. Þá hefði ferillinn hins vegar þurft að vera farsæll – alveg til enda.

Davíð Oddsson er 75 ára í dag og fær hamingjuóskir af því tilefni. Hann er enn á vegum eigenda Morgunblaðsins og ekkert lát virðist vera á því – nema þá að stórar tilkynningar berist síðar í dag.

Því er þó ekki spáð.

Hefði ekki verið fullt tilefni til að halda hátíð á Íslandi þegar maður með feril Davíðs á stórafmæli?

Því má alveg velta fyrir sér. Ef allt væri með felldu hefði það varla verið spurning. Maður sem var borgarstjóri í Reykjavík í níu ár, varð svo forsætisráðherra í 13 ár og formaður Sjálfstæðisflokksins í 14 ár. Ólafur Thors er sá eini sem setið hefur lengur sem formaður og núverandi formaður Bjarni Benediktsson mun fara fram úr Davíð á þessu ári.

Vandinn er bara sá að eftir merkan stjórnmálaferil, sem reyndar súrnaði nokkuð í lokin, hafði Davíð ekki vit á að draga sig í hlé heldur notaði aðstöðu sína til að koma sér í lykilstöðu í Seðlabanka Íslands þar sem hann var eins og þorskur á þurru landi. Flestir þekkja söguna og aðkomu Davíðs að því að hrinda hruninu 2008 af stað vegna vanþekkingar og illvilja í garð eigenda bankanna á Íslandi.

„Höfundur hrunsins“ hefur ekki setið á friðarstóli frá því að ríkistjórn Jóhönnu Sigurðardóttur rak hann öfugan út úr Seðlabanka Íslands. Slíkt hefur ekki gert áður eða síðar. Eigendur Morunblaðsins völdu að veita honum skjól þar sem hann hefur sleikt sár sín í vel á annan áratug.

Þegar nýir eigendur Morgunblaðsins kynntu Davíð til sögunnar hjá blaðinu eftir að ríkisbankar höfðu „aflúsað“ útgáfu þess um nokkra milljarða króna fækkaði áskrifendum úr 35 þúsund um 10 þúsund á skömmum tíma og undir forystu Davíðs hefur fækkað enn. Fjöldi áskrifenda mun nú vera kominn niður fyrir tíu þúsund framan af viku. Hermt er að fleiri áskrifendur Morgunblaðsins séu meira en 100 ára gamlir en þeir sem eru undir þrítugu. Þetta er ekki selt dýrara en keypt.

Vegna deildra meininga um Davíð heldur þjóðin ekkert upp á þennan dag. Hannes Hólmsteinn Gissurarson bregður hins vegar ekki vana sínum og birtir, með góðvilja ritstjórans, grein um vin sinn í Morgunblaðinu i dag þar sem honum er lýst sem miklu mikilmenni. Raunar er sérstaklega tekið fram að hápunktur ferilsins hafi verið þegar Davíð bjargaði þjóðinni eftir hrunið. Bara skemmtilegt og undirstrikar hve mikið Hannes hefur dvalið erlendis hin síðari ár – þekkir núorðið sjálfsagt betur til í Brasilíu en á Íslandi.

- Ólafur Arnarson.