Lífróður Vinstri grænna – en er róið í öfuga átt?

Landsfundur Vinstri grænna á Akureyri um helgina var forystu flokksins erfiður. Reiði kraumar meðal flokksmanna, vonbrigði með stjórnarsamstarfið verða sífellt augljósari og fylgið fellur hratt.

Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins og forsætisráðherra, getur ekki lengur brosað framan í flokksmenn og látið eins og allt sé í himnalagi. Öllum er ljóst að vinstri stjórn Katrínar ræður ekkert við verðbólguna, vaxtaokur seðlabankans skekur þjóðfélagið, útlendingamálin eru nú rekin þvert á vilja Vinstri grænna, byssuvæðing lögreglunnar fer mjög í taugarnar á flokksmönnum, margir þeirra líta á Jón Gunnarsson sem illvígan andstæðing sem þeir ráða ekkert við og þá er staðan í loftslags-og umhverfismálum ekki til að gleðja þegar skuldbindingar Íslendinga og orkuskiptin eru langt á eftir áætlun. Raunar er það ekki síst vegna neitunarvalds vinstri grænna í virkjanamálum í þessari ríkisstjórn.

Margt fleira mætti nefna, svo sem hvernig ríkisfjármálin eru rekin ár eftir ár með hrikalegum halla, vandræðaganginn vegna Íslandsbankasölunnar og loks mætti nefna laumuspilið í kringum Lindarhvol sem sífellt verður óþrifalegra og ljótara ásýndum.

Fátt gleður flokksmenn annað en að flokkurinn, sem nú er orðinn dvergflokkur, kominn niður í 6 prósent í skoðanakönnunum og er nær alveg valdalaus í sveitarfélögum landsins, státar af því að eiga þrjá fulltrúa í ríkisstjórn, þar með talinn sjálfan forsætisráðherrann sem leiðir vinstri stjórnina, rúinn fylgi og trausti. Sorglegt er fyrir formann VG að hafa það helst til að gleðjast yfir að komast á leiðtogafundi í NATO sem flokkurinn er mótfallinn. Raunar virðist það einnig gleðja Katrínu að komast á fundina í Brüssel hjá ESB sem hentar ekki núverandi ríkistjórn að virða viðlits. Samt sat Katrín nú í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem sótti um aðild að ESB. Enginn minnist þess að þá hafi Katrín verið mótfallin aðild að ESB. Reyndar fór lítið fyrir henni í þeirri ríkisstjórn

Á landsfundinum reyndi Katrín að róa fundarmenn með tali um að Vinstri græn stæðu sig gjarnan vel í mótbyr. Varla hefur það haft mikil áhrif á landsfundarfulltrúa sem vita betur. Ekkert liggur fyrir um að flokkurinn standi sig eitthvað betur í mótbyr en þegar vel gengur. Dæmin sýna annað. Hún talaði um að hreyfingin væri drifin áfram af hugsjónum. Sei, sei. Ætli mörgum fundarmanna hafi þá ekki svelgst á í ljósi þess hvernig flokkurinn hefur gefið eftir mörg lykilstefnumál sín í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í núverandi ríkisstjórn. Varla ríma útlendingamálin, vopnavæðing lögreglunnar, Íslandsbankahneykslið eða Lindarhvolsdraugagangurinn við hugsjónir flokksins.

Tugir flokksmanna hafa nýlega sagt sig úr Vinstri grænum vegna óánægju með samstarfið í ríkisstjórninni og stefnuleysi Katrínar Jakobsdóttur. Hróp voru gerð að henni á landsfundinum. Þeir sem velja að kveðja Vinstri græna um þessar mundir fara vegna þess að þeir eru alvöru umhverfissinnar og vinstri menn en telja að flokkurinn sé nú hvorki vinstri né grænn.

Talsverðar líkur virðast vera á því að Vinstri græn verði ekki þingflokkur eftir næstu þingkosningar.

- Ólafur Arnarson.