Framsókn virðist vera að springa í loft upp eftir atburði síðustu daga.
Vigdís Hauksdóttir segir að flokkurinn geti liðið undir lok áður en tekst að fagna 100 ára afmælinu á næsta ári.
Fari svo vill Vigdís alfarið kenna Sigurði Inga Jóhannssyni um það.
Klögumálin ganga á víxl. Sigmundur Davíð nötrar af reiði en forsætisráðherra talar með þunga en heldur þó ró sinni. Því er haldið fram að flókin plott og valdabarátta ráði för sem geti ekki endað nema með banvænu blóðbaði.
Eftir 2. október verður ekkert eins og áður í flokknum.
Hermt er að Þórólfur Gíslason, valdamikli kaupfélagsstjórinn á Sauðárkróki, sé kóngulóin sem spinnur vefina að tjaldabaki. Hann hefur snúið baki við Sigmundi Davíð og styður nú Sigurð Inga heilshugar. Þess vegna steig Guðni Ágústsson fram á dögunum og sagði að Sigmundur Davið yrði að víkja. Guðni og Þórólfur ganga ætíð í takti.
Einnig er barist um varaformennsku í flokknum eftir að Eygló Harðardóttir bauð sig fram. Hún hefur myndað bandalag við Sigurð Inga. Lilja Alfreðsdóttir hafði áður boðið sig fram sem varaformaður.
Framsóknarflokkurinn er klofinn niður í rót. Eftir næstu helgi verður klofningurinn staðfestur þar sem önnur fylkingin hefur völdin en hin verður í fýlu.
Völdin yfir hverju, má spyrja? Ónýtum flokki á útleið úr íslenskum stjórnmálum, eða hvað?
Dagfari þorir ekki að spá Framsóknarlausu Íslandi 2016.
Framsókn kemur alltaf aftur eins og sagan kennir okkur. Verður þó í smærri kantinum næstu fjögur árin.
Framsóknarlaust ísland 2016?
Fleiri fréttir
Nýjast