Framsókn og Sjálfstæðisflokkur í hár saman – misvísandi áætlanir á ábyrgð Sigurðar Inga

Furðu vekur að átök milli sjálfstæðismanna og formanns Framsóknar vegna Betri byggðar skuli ekki hafa fenga meiri athygli í umræðunni en raun ber vitni.

Forsvarsmenn Betri byggðar, sem er félag sem heldur utan um stóru samgönguverkefnin á höfuðborgarsvæðinu sem ríki og sveitarfélögin koma að, hafa ekki vandað Sigurði Inga Jóhannssyni kveðjur. Bjarni Benediktsson hefur fjallað um það hvernig áætlanir sem gerðu ráð fyrir að verkið myndi kosta 160 milljarða virðast nú komnar upp í 300 milljarða. Bjarni bendir í allar áttir og reynir á lævísan hátt að láta böndin berast að meirihlutanum í Reykjavík, einkum sjálfum borgarstjóranum.

Það fær hins vegar engan veginn staðist vegna þess að sökudólgurinn situr við hliðina á Bjarna Benediktssyni í vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur. Sá heitir Sigurður Ingi Jóhannsson og nú hefur verið upplýst að hinar umdeildu og verðbólgnu áætlanir voru gerðar undir leiðsögn hans sem samgönguráðherra og Vegagerðarinnar sem hann bar ábyrgð á.

Þessar staðreyndir komu fram í dagsljósið í síðustu viku og þeim hefur ekki verið mótmælt, enda er það ekki hægt. Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri byggðar, upplýsti í fjölmiðlum að þessar áætluðu fjárhæðir hafi orðið til á vegum Sigurðar Inga ári áður en Betri byggð var stofnuð. Rétt er að geta þess að Davíð var formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna og er smurður inn í innsta hring Sjálfstæðisflokksins. Formaður Betri byggðar er sá ágæti sjálfstæðismaður, Árni Mathiesen, fyrrum fjármálaráðherra flokksins og þingmaður til fjölda ára.

Ljóst er að stóru samgönguframkvæmdirnar á höfuðborgarsvæðinu sigla nú allar verulega fram úr áætlun. Gildir það jafnt um Borgarlínuna, Sundabraut, mislæg gatnamót í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði og reyndar allt annað sem fellur undir verkefni Betri byggðar. Það breytir ekki hinu að meira og minna öll þessi verkefni eru þörf og óhjákvæmileg til að takast á við sívaxandi umferð á höfuðborgarsvæðinu öllu. Ekki bara í Reykjavík, heldur á öllu svæðinu. Höfuðborgarsvæðið telur nú um 250 þúsund íbúa og hefur þeim fjölgað meira en 20 prósent á örfáum árum. Það hlýtur að hafa, og hefur, áhrif á umferðarþungann.

Sjálfstæðismenn hafa reynt með einkar ómerkilegum hætti að klína öllum vandanum vegna þessara vaxtarverkja á meirihlutann í Reykjavíkurborg – enda líða flokksmenn endalausar þjáningar vegna valdaleysis flokksins í borgarmálum, svo til óslitið síðustu 30 árin. Kjósendur virðast engan áhuga hafa á að fá þá aftur til valda þar.

Staðreyndirnar tala sínu máli. Undir forystu Sigurðar Inga Jóhannssonar voru gefnar út áætlanir um að öll umrædd verkefni gætu kostað 160 milljarða króna. Síðan var stofnað til verkefnisins Betri byggðar ári síðar. Í forsvari þar eru sjálfstæðismenn frá öllum byggðarlögum nema Reykjavík og svo formenn vinstri stjórnarinnar, Bjarni, Katrín og Sigurður Ingi, sem ber ábyrgð á veikburða áætlanagerð.

Þó að nokkrir minnipokamenn í Sjálfstæðisflokknum og Morgunblaðið hafi djöflast gegn borgarstjórnarmeirihlutanum vegna þessa máls hefur það engin áhrif. Staðreyndirnar tala sínu máli og fyrir liggur að óvönduð áætlanagerð í þessu risastóra máli er á ábyrgð Sigurðar Inga.

Hafa verður í huga að 160 milljarðar árið 2019 er annað en nú. Verðbólga hefur þjakað hér á landi og margs konar aðföng hafa hækkað vegna styrjaldarátaka. Engu að síður er skekkjan mikil og gjörsamlega óboðleg en Sigurður Ingi situr sem fastast.

Ljóst er að fresta þarf einhverjum þessara verkefna, forgangsraða upp á nýtt og minnka verkefnið þannig að það verði viðráðanlegt. Ríkið ætti nú að láta af stefnu sinnu um að eyða endalausum peningum í monthús til að hýsa yfirstjórn ríkisins. Listinn er langur – og því miður ljótur. Kontór fyrir þingmenn upp á fimm hæðir, aðstaða fyrir utanríkisráðuneytið í dýrasta skrifstofuhúsi landsins þar sem óþarfa ráðuneytinu verður einnig komið fyrir og þannig mætti lengi telja. 

Að ekki sé minnst á vanhugsuð áform um að byggja glerhýsi við gömlu stjórnarráðsbygginguna sem nú hefur verið sett á ís eftir að búið er að sturta 500 milljónum króna ofan í opna og ljóta holu á stjórnarráðsreitnum. Það bíður nýrrar ríkisstjórnar að slökkva á þeirri dellu, fylla holuna og tyrfa yfir.

- Ólafur Arnarson