Frambjóðandi sægreifa og hannesar

Svo virðist sem Davíð Oddsson ætli ekki að játa sig sigraðan og draga forsetaframboð sitt til baka áður en hann verður sér til enn meiri minnkunar. Trúlega er mat hans og helstu stuðningsmanna það að skaðinn sé skeður og að hann lagi ímynd sína ekki með því að renna af hólmi. Davíð vill væntanlega fara niður með sökkvandi skipi frekar en stökkva frá borði. Hann virðist ekki ætla að draga sig í hlé eins og flestir bjuggust við þegar ljóst var í lok síðustu viku að hann væri ekki að fá nema fimmtung fylgis samkvæmt skoðanakönnunum.

Davíð reynir að heyja kosningabaráttu sína á neikvæðum nótum. Hann leggur allt kapp á að sverta Guðna Th. Jóhannesson og freistar þess að æsa hann upp í þeim þáttum sem þeir hafa komið fram saman. Guðni hefur staðist þá freistingu að hjóla í Davíð og rifja upp margháttaðar misgjörðir hans og það hvernig hann er einn helsti orsakavaldur hrunsins, maðurinn sem setti Seðalbanka Íslands á hausinn. Guðni hefur valið faglegu leiðina og komið fram af kurteisi og yfirvegun í anda Kristjáns Eldjárns og Vigdísar Finnbogadóttur. Svo virðist sem kjósendur kunni betur að meta þá framkomu heldur en þann leðjuslag sem Davíð Oddsson býður upp á.

Kjósendur hafa engan áhuga á umfjöllun um þorskastríðið eða upprifjun á Icesavemálum. Davíð hefur ítrekað reynt að koma þeim málum í umræðuna. Talið er að sú nálgun sé komin úr smiðju Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, helsta ráðgjafa Davíðs í framboðinu. Mörgum virðist sem Hannes hafi meiri áhuga á þessu forsetaframboði en Davíð sjálfur sem nálgast verkefnið með hálfgerðum fýlusvip.

Vitað er að þeir sem hafa mestan áhuga á að koma Davíð á Bessastaði, auk Hannesar Hólmsteins, eru þeir sægreifar sem eiga Morgunblaðið og hafa látið sig hafa það að vera með hann á launum þar síðustu 7 árin. Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, fulltrúi ekkjunnar í Vestmannaeyjum, er fremstur í flokki stuðningsmanna Davíðs og vinnur að framboðinu, m.a. með dóttur sinni og tengdasyni, Friðbirni Orra Ketilssyni, sem á sæti í stjórn Morgunblaðsins. Kjartan Gunnarsson ásamt Hannesi Hólmsteini eru einnig til taks svo og Eyþór Arnalds, sá hinn sami og lenti í útistöðum við ljósastaur á Kleppsvegi um árið sem endaði með árekstri þar sem Eyþór reyndi að klína sök á eiginkonu sína sem var víst í mun betra ástandi en Eyþór þegar kom til átakanna við ljósastaurinn. Þessu til viðbótar eru helstu hugmyndasmiðir framboðsins þeir Óli Björn Kárason og Hallur Hallsson.

Sægreifarnir sem njóta góðs af gjafakvótakerfi þjóðarinnar og eru smám saman að eignast allt á Íslandi, vilja nú eignast Bessastaði og bæta þeim við fjölskrúðugt eignasafn sitt sem meðal annars saman stendur af Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum.

Þessi áform þeirra munu ekki ganga eftir að sinni því þeir veðjuðu á rangan hest. Það er engin eftirspurn eftir gömlum og útbrunnum stríðsmanni úr leðjupólitík fyrri tíma. Sem betur fer.

Við þurfum samt ekkert að vorkenna sægreifunum. Þeir eiga nóg.