Formanni Samfylkingarinnar falið dagskrárvald á landsfundi Sjálfstæðismanna

Bjarni Benediktsson sagði í opnunarræðu sinni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins að Evrópumálin væru nú algerlega komin út af borðinu og þyrfti ekki að ræða frekar. Því gæti það fólk sem yfirgaf Sjálfstæðisflokkinn og fór yfir í Viðreisn hæglega komið aftur á hlýjan faðm íhaldsins. Bara – aldrei nefna ESB!

Rök formanns Sjálfstæðisflokksins fyrir því að Evrópumálin væru komin af dagskrá voru þau að nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar hefði sagt að aðild að ESB væri ekki í forgangi hjá Samfylkingunni.

Látum nú vera að með því að taka ESB aðild úr forgangi hjá samfylkingunni er Kristrún Frostadóttir að gera mikil mistök. Skoðanakannanir sýna að meirihluti þjóðarinnar vill beina aðild að ESB. Hví þá að setja málið til hliðar nú?

Hið athyglisverða við ræðu Bjarna Benediktssonar er að hann hefur afhent Samfylkingunni og nýkjörnum formanni hennar dagskrárvaldið í íslenskri þjóðmálaumræðu. Ekki nóg með það, hann hefur fengið Kristrúnu Frostadóttur dagskrárvaldið á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.

Þetta þarf þó kannski ekki að koma á óvart. Bjarni Benediktsson og fylgismenn hans hafa síðustu vikuna lagt á það mikla áherslu að val sjálfstæðismanna á formanni verði fyrir alla muni að njóta samþykkis formanna VG og Framsóknar.

Hvað finnst sjálfstæðismönnum á landsfundi um það að formaður flokksins sé búinn að útvista dagskrárvaldinu á fundinum og í þjóðmálaumræðunni til höfuðandstæðings flokksins jafnframt því að fela formönnum vinstri flokka vald til að velja Sjálfstæðisflokknum formann? Er það allt í lagi?

Engin furða er þótt Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki lengur turn íslenskra stjórnmála heldur orðinn lítil tóft með svona mann í brúnni.

Jú, Bjarni hefur haldið flokknum í ríkisstjórn í níu ár en hver er árangurinn? Hafa skattar lækkað? Hefur verið dregið úr útþenslu ríkisbáknsins eða jafnvel dregið saman? Er orðið auðveldara fyrir fólk að eignast húsnæði? Er verið að nýta einkaframtakið til að bæta rekstur í heilbrigðiskerfinu, spara fjármuni skattgreiðenda og bæta þjónustu við notendur heilbrigðisþjónustu? Svari nú hver fyrir sig.

Meirihluti þjóðarinnar vill aðild að ESB. Þeir sem kunna að reikna og hugsa um heildina en ekki þrönga sérhagsmuni sjá að aðild að ESB bætir hag íslenska þjóðarbúsins um mörg hundruð milljarða á hverju ári.

Aldrei hefur verið eins brýnt og nú að vinna að framgangi ESB mála. Eins og ástandið er í efnahagsmálum heinmsins er brýnna en nokkru sinni fyrr að vinna að því að unnt verði að taka upp alvörumynt í stað dvergkrónunnar, minnsta myntkerfis í heimi.

Varðandi það að Bjarni Benediktsson hafi boðið Viðreisnarfólki til baka, mætti segja: Viðreisn hlýtur ekki síður að bjóða óánægðum sjálfstæðismönnum til sín. Viðreisn varð ekki til bara út af Evrópumálum, heldur einnig vegna fiskveiðistjórnunar, landbúnaðarmála, gjaldmiðlamála og til að vinna gegn útþenslu ríkisbáknsins. Ekki hefur þörfin minnkað en sjaldan, ef nokkru sinni, hefur útþensla ríkisbáknsins verið jafn stjórnlaus og í tíð núverandi fjármálaráðherra, sem sést vel á því að hann leggur til að ríkissjóður verði rekinn með 90 milljarða halla á næsta ári og finnst það bara vel af sér vikið.

- Ólafur Arnarson