Fellibylur í fingurbjörg

Vestmannaeyingar hafa gert sig kjánalega með orðsendingum vegna fyrirhugaðrar nýbyggingar Landsbankans í Reykjavík.

 

Elliði bæjarstjóri og félagar eru sárir vegna þess að þeir klúðruðu sparisjóði sínum og misstu hann út úr höndum sér.

 

Með ógætilegum útlánum gerðu þeir sparisjóðinn óhæfan til rekstrar þannig að FME varð að taka af þeim völdin eins og fyrir er mælt í lögum um fjármálastofnanir. FME fékk Landsbankann til að taka við leifunum af Sparisjóði Vestmannaeyja.

 

Eyjaskeggjar urðu óðir út af þessu og láta reiði sína bitna á Landsbankanum sem þó gerði ekki annað en bjarga málum fyrir FME þegar sparisjóðurinn var kominn í þrot. Þeir fengu örhluti afhenta í bankanum sem gagngjald.

 

Út á það hefur bæjarstjórinn gasprað um byggingu Landsbankans og heimtað hluthafafund! Vestmannaeyjabær á víst hlut í Landsbankanum sem nemur 0,015% af heild. Gæti verið að markaðsvirði um 30 milljónir króna en bankinn gæti verið virði 200 milljarða króna.

 

Örhluthafi ræður vitanlega engu. Þessi afstaða sýnir einungis hroka og heimsku Elliða Vignirssonar. Hann ætti frekar að rýna í ástæður þess að sparisjóður þeirra komst í þrot.

 

Svo er auðvitað kostulegt hvernig Morgunblaðið reynir að spila undir í þessu máli. Þarf ekki að koma á óvart því sægreifar í Eyjum eru stærstu hluthafar Moggans og segja honum fyrir verkum varðandi efnisval og afstöðu.

 

Nokkrir lýðskrumarar hafa opinberað sig í umræðu um hagræði í rekstri Landsbankans með þarfri nýbyggingu.

 

Elliði sómir sér svo sem vel í hópi hinna innantómu lýðskrumaranna sem eru m. a. Elín Hirst, Frosti Sigurjónsson, Sigmundur Davið og Guðlaugur Þór.

 

Kjánalegt upphlaup Elliða er fellibylur í fingurbjörg.