Einn af einnota oddvitunum dregur upp dökka mynd

Björn Bjarnason, einn af fyrrum einnota oddvitum Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, dregur upp dökka mynd í pistli um helgina þegar hann veltir fyrir sér stöðu mála í aðdraganda kosningana eftir nokkra daga.

Björn sér allt svart og kemur auga á margvísleg samsæri gegn Sjálfstæðisflokknum eins og svo oft áður. Skrif Björns einkennast æði oft af því að hann ætlar andstæðingum flokksins allt hið versta.

Þegar minnst er á einnota oddvita er rétt að rifja eftirfarandi upp: Frá því að Davíð Oddsson hvarf af vettvangi borgarmálanna hefur Sjálfstæðisflokkurinn haft átta einnota oddvita flokksins í borgarmálum.

Árið 1991 tók Davíð við embætti forsætisráðherra og þá var Markús Örn Antonsson fenginn til að taka við borgarstjórastarfinu sem hann gegndi til ársins 1994 þegar Árni Sigfússon tók við. R-listinn náði þá völdum. Árið 2002 var Björn Bjarnason settur í efta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins og tapaði fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson tók við oddvitasætinu 2006 og varð þá borgarstjóri í 16 mánuði. Hanna Birna Kristjánsdóttir leiddi lista flokksins 2010 og tapaði. Árið 2014 leiddi Halldór Halldórsson lista Sjálfstæðisflokksins og tapaði. Eyþór Arnalds var svo sjöundi einnota oddvitinn hjá Sjálfstæðisflokknum og nú spreytir Hildur Björnsdóttir sig og flest bendir til þess að örlög hennar verði einnig tap. Þá verður henni væntanlega gert að víkja eins og hinum fyrri. Þá væri kominn áttundi einnota oddvitinn hjá flokknum á tæpum 30 árum. Hver skyldi verða sá níundi?

Í grein sinni kynnir Björn Bjarnason þá samsæriskenningu að oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, Einar Þorsteinsson, sem nýlega gekk til liðs við flokkinn úr Sjálfstæðisflokknum í Kópavogi, verði „hjól undir vagn Dags Eggertssonar borgarstjóra.“ Erfitt er að sjá hvernig það má verða. Björn rökstyður þessa fullyrðingu sína ekki með neinum hætti. Haldi núverandi meirihluti velli, mun enginn þurfa að tala við fulltrúa Framsóknar sem kunna að ná kosningu að þessu sinni en flokkurinn á nú engan borgarfulltrúa. Núverandi meirihluti hefur unnið vel saman og telur enga ástæðu til að breyta til, fái hann áframhaldandi brautargengi.

Þurfi að gera breytingar, er ekkert sem bendir til þess að áhugi væri á samstarfi við dreifbýlisflokkinn Framsókn sem vinnur stöðugt gegn kjósendum höfuðborgarsvæðisins með því að koma í veg fyrir sanngjarna jöfnun atkvæðisréttar. Þéttbýlið hefur hálft atkvæði á við landsbyggðina og allir vita að Framsóknarflokkurinn ber höfuðábyrgð á því ranglæti.

Trúlega er Sjálfstæðisflokkurinn eini flokkurinn í borgarstjórn sem gæti hugsað sér að vinna með Framsókn. Vandinn er hins vegar sá að oddviti flokksins hefur gert lítið úr frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins í viðtalsþáttum að undanförnu. Þannig sagði hann á visi.is að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík væri þverklofinn og þess væri gætt að sýna einungis Hildi Björnsdóttur í kosninabaráttunni en fela hina frambjóðendurna á lista flokksins. Þetta er út af fyrir sig rétt hjá Einari Þorsteinssyni en væntanlega ekki gott innlegg í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn.

Umrædd grein Björns Bjarnasonar er fyrst og fremst sorgleg. Hann talar um vinstri meirihluta í borginni. Björn hlýtur að vita betur. Hjá Reykjavíkurborg stjórnar miðjumeirihluti en í landsstjórninni er Sjálfstæðisflokkurinn burðarás í vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur, formanns sósíalistaflokksins Vinstri grænna. Hann ætti því að tala varlega um „vinstri-villuna“ sem sjálfstæðismönnum er tamt að nota sem grýlu í aðdraganda kosninga þegar þeir lenda í málefnaþrotum. Þá leyfir Björn Bjarnason sér að halda fram þeim rangindum að Reykjavíkurborg hafi tapað 3,8 milljörðum í fyrra. Að sjálfsögðu ber að horfa á samstæðu borgarinnar, A- og B- hlutann svonefnda. Það er hið eina sem skiptir máli. Þar var hagnaðurinn árið 2021 hvorki meira né minna en 23.4 milljarðar króna. Björn kýs að horfa fram hjá því.

Vandræðaleg viðhorf Björns Bjarnasonar endurspegla þá miklu örvæntingu sem ríkir nú í herbúðum Sjálfstæðisflokksins. Skoðanakannanir mæla fylgi flokksins lægra en áður hefur sést, ljóst er að listi flokksins höfðar illa til kjósenda og auk þess er Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík klofinn í tvær fylkingar. Engum er um að kenna nema flokksmönnum sjálfum. Sjálfsagt er erfitt að horfast í augu við það.

- Ólafur Arnarson