Eineltisbullan á skólalóðinni

Í samtali við Vísi segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, að hann hafi ekki lesið greinargerð Sigurðar Þórðarsonar, fyrrverandi setts ríkisendurskoðanda um málefni Lindarhvols, sem Sigurður sendi sérstaklega á fjármálaráðherra í júlí 2018.

Ráðherrann ætlast bersýnilega til að þingmenn og almenningur trúi því að enginn starfsmaður fjármálaráðuneytisins (þeir eru fleiri en 100 og þar af einn sem er eini stjórnarmaður Lindarhvols) hafi á heilum fimm árum kynnt sér skýrsluna nægilega vel til að vekja athygli ráðherrans á því að í greinargerðinni eru gerðar mjög alvarlegar athugasemdir við starfsemi Lindarhvols allt frá því fyrir fyrsta stjórnarfund þessa einkahlutafélags.

Þrjár skýringar á þessum ummælum ráðherrans eru líklegastar:

  • Ekki hafi verið gætt að því að ráða til starfa í fjármálaráðuneytinu fólk sem veldur sínum mikilvægu störfum í að gæta hagsmuna íslenskra skattgreiðenda og því sé alvarlegur skortur á hæfu fólki þar innan dyra.
  • Ráðherra hafi fengið ábendingar frá embættismönnum ráðuneytisins um alvarlegar athugasemdir Sigurðar Þórðarsonar við störf stjórnar Lindarhvols og Steinars Þórs Guðgeirssonar sem eiginlegs framkvæmdastjóra félagsins en sjálfur ákveðið að gera ekkert með þær.
  • Ráðherra hafi sjálfur kynnt sér efni greinargerðar Sigurðar Þórðarsonar og orð hans séu hrein ósannindi.

Í öllu falli er erfitt að sjá að ráðherrann og embættismennirnir hafi verið að sinna skyldum sínum í starfi í þessu máli.

Í ljósi þess hve harkalega Bjarni Benediktsson hefur beitt sér til að koma í veg fyrir birtingu greinargerðarinnar – hann hefur ekki einu sinni veigrað sér við því að beita húsbóndavaldi sínu í Valhöll á Birgi Ármannsson, forseta Alþingis, til að halda lokinu á skýrslunni – blasir við að ráðherrann veit upp á hár hvað stendur í greinargerðinni og hvaða alvarlegu þýðingu það hefur.

Greinargerðin lýsir tómu fúski í starfsemi Lindarhvols, fúski sem kostaði íslenska ríkið stórar fjárhæðir. Fúskið kemur ofan frá. Þegar skoðaðir eru refsidómar yfir bankamönnum vegna hrunmála blasir við að nauðsynlegt er að rannsaka gaumgæfilega hvort stjórn Lindarhvols og sá sem var skilgreindur „framkvæmdastjóri/rekstur“ félagsins hafi gerst sekir um umboðssvik í störfum sínum og ráðstöfun eigna félagsins.

Birgir Ármannsson féll því miður í þann fúla pytt að taka flokks- og foringjahollustu fram yfir skyldur sínar sem æðsti maður æðstu stofnunar lýðveldisins og er minni maður fyrir vikið. Kannski hefur gleymst að kenna honum það í lagadeildinni á sínum tíma að framkvæmdavaldið heyrir undir löggjafarvaldið en ekki öfugt.

Í sama viðtali við Vísi sagði Bjarni: „En það liggur hins vegar fyrir að þessari greinargerð var svarað með andmælum frá þeim sem athugasemdirnar beinast að. Það virðist enginn á þinginu eða í fjölmiðlum hafa áhuga á því að sjá hina hlið málsins. Enda er fólk ekki í neinni staðreyndaleit. Það er verið að leitast við að þyrla upp ryki og varpa skugga á störf þeirra sem þarna koma að málum.“

Þessi orð fjármálaráðherra eru dæmigerð viðbrögð hans þegar kastljósið beinist að „fúski“ sem hann ber ábyrgð á. Og „fúskið“ er víða í kringum hann. Íslandsbankafúskið er nýlegt dæmi. Það er svipað dæmi og Lindarhvoll þar sem ekki var farið eftir reglum – limirnir dönsuðu eftir höfðinu og höfuðið er fjármálaráðherrann.

Af einhverjum sökum finnur Ríkisendurskoðun stjórnendum Íslandsbanka og Bankasýslunnar allt til foráttu í Íslandsbankasölunni en hvítþvær Lindarhvol, sem er af sama toga, sem dæmi um góð vinnubrögð og vandaða stjórnsýslu. Ef Ríkisendurskoðun hefði skoðað Lindarhvol með sömu gleraugum og Íslandsbankasöluna má ætla að niðurstaða opinberrar skýrslu Ríkisendurskoðunar um Lindarhvol væri í takt við niðurstöður Sigurðar Þórðarsonar.

Einhverjir hafa sagt að munurinn á Íslandsbanka og Lindarhvoli hafi verið sá að það hafi verið metið svo að hægt væri að fórna stjórnendum bankans án þess að það slettist neitt á fjármálaráðherrann á meðan návígi hans við Lindarhvol sé slíkt að eina leiðin til að verja ráðherrann hafi verið að skila hvítþvottarskýrslu, líkri þeirri sem Skúli Eggert Þórðarson hafi tekið að sér að skrifa.

Já, fúskið í kringum fjármálaráðherra víða en líklega er Lindarhvolsfúskið hið kostnaðarsamasta fyrir íslenska ríkið og skattgreiðendur, alla vega fram til þessa. Raunar virðist flest sem Bjarni ber ábyrgð á verða að fúski og hneyksli.

Til er sagan af föðurnum sem í hverri viku var kallaður á skrifstofu skólastjórans í skóla sonar hans vegna þess að í hverri viku lenti sá stutti í slagsmálum á skólalóðinni. Faðirinn hafði miklar áhyggjur af því að sonurinn yrði fyrir einelti í skólanum og skildi ekkert í því að skólastjórinn tók fálega í það. Þar kom að faðirinn missti stjórn á sér í enn eitt skiptið sem hann þurfti að sækja soninn til skólastjórans. Hann barði í borðið og krafðist þess að skólinn veitti syni hans tilhlýðilega vernd og viki bullunum sem legðu hann í einelti úr skóla. Skólastjórinn gerði föðurnum kurteislega grein fyrir því að þegar það væri alltaf sonur hans sem lenti í slagsmálum á skólalóðinni við hina og þessa skólafélaga sína væri ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að sonur hans væri bullan.

Þegar allt fer ávallt úrskeiðis hjá einum og sama ráðherranum og hann kennir ávallt öðrum um, helst þeim sem benda á vandamálin, hlýtur að læðast að fólki sá grunur að ráðherrann kunni að vera vandamálið en ekki lausnin.

- Ólafur Arnarson