Davíð syrgir átrúnaðargoðin sín

Yfirleitt lætur maður ógert að eyða dýrmætum tíma í að lesa rausið í Davíð Oddssyni sem hann birtir vikulega sem spunakennda smásögu í sunnudagsblaði Morgunblaðsins undir yfirskriftinni Reykjavíkurbréf. Þó kemur fyrir að maður staldri við og lesi þetta, sérstaklega þegar vitleysan tekur út yfir allan þjófabálk. Þá getur maður ekki annað en velt því fyrir sér hvort einhvers staðar örli á húmor eða hvort skrifin séu frekar viðfangsefni læknisfræðinnar. Sú er raunin um þessa helgi þegar Davíð syrgir fallið átrúnaðargoð sitt, Boris Johnson, sem hrökklaðist frá völdum í Bretlandi í liðinni viku, rúinn trausti. Davíð er þetta greinilega mikið áfall sem bætist ofan á harm sem hann hefur enn ekki komist yfir – fall Donalds Trump í Bandaríkjunum.

Sú var tíð að Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins skipti miklu máli í þjóðfélagsumræðunni. Einkum þegar Bjarni heitinn Benediktsson skrifaði það og gaf þjóðinni pólitískar línur sem tekið var eftir. Sama gilti um skrif Matthíasar Johannessen, ritstjóra blaðsins í áratugi. Hann hreyfði oft við málum sem vöktu mikla athygli. Skrif hans höfðu jafnan mikil áhrif í samfélagsumræðunni og réðu stundum úrslitum. Þetta er liðin tíð og því miður hefur Davíð Oddsson dregið Reykjavíkurbréfið niður í forarsvað. Það er mikil synd.

Í skrifum sínum núna um helgina dettur Davíð niður á það plan að fíflast með veikleika þingmanns Íhaldsflokksins sem Boris útnefndi varaformann þingflokksins sem telur 360 þingmann. Maðurinn hefur orð á sér fyrir að hafa leitað á karlmenn og „klipið“ þá, einkum þegar hann hefur verið undir áhrifum áfengis. Gefið hefur verið til kynna að maðurinn sé samkynhneygður. Ef svo er, þá er það hvorki bannað nú á tímum né tiltakanlega merkilegt í nútíma samfélagi. En Davíð virðist þykja þetta bæði fyndið og asnalegt.

Af einhverjum ástæðum þykir ritstjóra Morgunblaðsins við hæfi að reyna að blanda Bandaríkjaforseta inn í þetta mál. Orðrétt segir í Reykjavíkurbréfi þann 8.7.2022:

„Þegar gengið var á Boris Johnson var fullyrt að honum hafi verið sagt fyrir tveimur eða þremur árum að þessi einstaklingur hefði þá fullur, eins og áður sagði, klipið einstaklinga í samkvæmi. Þessi íþróttalýsing hefur að vísu verið sögð um Joe Biden í meira en 40 ár nema að hann gerði þetta ófullur og þess vegna þótti sjálfsagt að gera hann að varaforseta í átta ár og svo forseta, þegar hann var grafinn upp úr kjallaranum.“

Umhugsunarefni er að fyrrverandi forsætisráðherra Íslands skuli telja sér sæma að fjalla með slíkum hætti um réttkjörinn forseta Bandaríkjanna. Þetta er vitanlega ekki boðlegt og er langt fyrir neðan virðingu dagblaðs sem hefur komið út á Íslandi í meira en eitthundrað ár. Davíð Oddsson einn getur ráðið fram úr sínum vandamálum. En að eigendur Morgunblaðsins skuli skapa honum vettvang og vilja bera ábyrgð á þessu er hulin ráðgáta.

Raunalegt hefur verið að fylgjast með skrifum ritstjórans um fall Donalds Trump. Hann er greinilega ekki enn búinn að jafna sig á ósigri hans. Og nú bætist niðurlæging og fall Borisar Johnsson við, en þessir tveir hafa verið átrúnaðargoð Davíðs hin síðari ár. En eitthvað er þó enn til að gleðja. Hann hefur skrifað hugljúfa lýsingu í Reykjavíkurbréfi á því hve mikið góðmenni Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sé en hann er hægri hönd Pútíns í því verkefni að drepa saklaust fólk í Úkraínu. Davíð kallaði Lavrov ÍSLANDSVIN.

Davíð Oddsson á þó enn eftir eitt átrúnaðargoð við völd í heiminum. Sannan Íslandsvin.

- Ólafur Arnarson.