Bryndís vill ganga inn í sleifarlagið á Seltjarnarnesi

Mbl.is skýrir frá því í dag að Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, leggi það til að hverfi í Reykjavík reyni að segja sig úr höfuðborginni og óska eftir inngöngu í sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Nefnir hún Seltjarnarnes í því samhengi og telur að fólk í Vesturbæ Reykjavíkur ætti að æskja inngöngu í Seltjarnarnes. Önnur eins della hefur varla heyrst áður og sýnir að þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru gjörsamlega búnir að missa raunveruleikatengsl.

Sjálfstæðismenn þjást af mikilli vanlíðan vegna þess að þeir hafa verið nánast valdalausir í Reykjavík frá því árið 1994, en borgin var áður krúnudjásn flokksins. Ítrekað hefur verið teflt fram borgarstjóraefnum sem kjósendur hafa hafnað og sent út í hafsauga. Má þar nefna Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, Halldór Halldórsson, Eyþór Arnalds og nú síðast Hildi Björnsdóttur, sem virðist reyndar hafa horfið af vettvangi stjórnmálanna eftir að henni mistókst að afla fylgis fyrir flokkinn. Undir hennar „forystu“ fékk Sjálfstæðisflokkurinn næst minnsta fylgi í Reykjavík frá upphafi. Flokkurinn hefur boðið fram einnota borgarstjóraefni um árabil og nú veltir fólk fyrir sér hverjum verður hent næst undir valtarann. Verður það Kjartan Magnússon eða jafnvel Friðjón Friðjónsson?

Við þessar aðstæður stígur fram einn af minni spámönnum þingflokks Sjálfstæðisflokksins, Bryndís Haraldsdóttir, og telur að íbúar í hverfum borgarinnar sækist eftir „úrsögn“ úr borginni yfir í nærliggjandi sveitarfélög. Þingmaðurinn ætti að vita betur. Hverfi, hópar eða einstaklingar segja sig hvorki úr né í sveitarfélög. Það gengur ekki þannig fyrir sig. Einhver í Valhöll ætti að reyna að útskýra fyrirkomulagið fyrir þingmanninum, sem ekkert virðist hafa lært af átta ára setu í bæjarstjórn Mosfellsbæjar, þannig að hann verði sér ekki frekar til skammar vegna þessarar dæmalausu þvælu.

En úr því að Bryndís nefnir Seltjarnarnesbæ og lætur í veðri vaka að gott væri fyrir Vesturbæinga að flýja á náðir þess sveitarfélags er rétt að vekja athygli á nokkrum staðreyndum sem sjálfstæðismenn ættu að hafa í huga til samanburðar þegar þeir hreyta órökstuddri gagnrýni á meirihlutann í Reykjavík.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ráðið ríkjum á Seltjarnarnesi frá upphafi. Sigurgeir Sigurðsson var þar bæjarstjóri í áratugi. Á þeim tíma fór fram nær öll uppbygging sem orðið hefur í sveitarfélaginu. Þegar hann vék fyrir aldurs sakir árið 2002, eftir 40 ára forystu, tók við fólk sem hefur engu komið í verk – öðru en að safna skuldum. Fyrst gegndi Jónmundur Guðmarsson stöðu bæjarstjóra en hrökklaðist úr starfi og tók við sem framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. Þá tók Ásgerður Halldórsdóttir við þar til í fyrra að Þór Sigurgeirsson, sonur Sigurgeirs bæjarstjóra, varð leiðtogi flokksins og bæjarstjóri.

Þrátt fyrir að nær engar stórar framkvæmdir hafi farið fram í sveitarfélaginu, enda var þeim flestum lokið í tíð Sigurgeirs, hefur það verið rekið með stöðugum halla samfellt í níu ár. Flokkurinn hefur þráast við að hafa útsvar í samræmi við það sem gengur og gerist í nágrannasveitarfélögum og því aukið á skuldasöfnun. Rembingur Sjálfstæðisflokksins við að reyna að státa af lægra útsvari en Kópavogur, Reykjavík og Hafnarfjörður hefur kostað Seltjarnarnesbæ skuldasöfnun og það að ekki er unnt að veita þá þjónustu sem íbúar eiga sjálfsagða kröfu til.

Taprekstur þessa litla sveitarfélags 4.500 manna nemur á síðustu níu árum tveimur milljörðum króna og gerir það að verkum að hendur hins nýja og velviljaða bæjarstjóra eru bundnar. Fyrir liggur að gervigras á fótboltavelli Gróttu á Seltjarnarnesi er ónýtt og hættulegt, en meirihluti Sjálfstæðisflokksins ætlar ekki að laga það fyrr en eftir mörg ár. Bæjarstjórinn getur ekkert gert þó að hann sé velviljaður félaginu. Hann ræður ekki við þessa 200 milljón króna framkvæmd. Nýlega sendu fyrirliðar kvenna og karla í meistaraflokkum Gróttu áskorun til bæjaryfirvalda um að bætt yrði úr áður en fleiri alvarleg slys hlytust af. Undir áskorunina skrifuðu einnig lykilleikmenn Gróttu sem höfðu orðið yfir alvarlegum slysum vegna skemmda á vellinum.

Bryndís Haraldsdóttir hefði alveg mátt kynna sér þessar staðreyndir áður en hún fór að gjamma út í bláinn um að íbúar í Vesturbæ Reykjavíkur vildu flytja sig um set.

Hún ætti sennilega að líta sér nær í Mosfellsbæ þar sem hún hefur verið í forystu Sjálfstæðisflokksins – sem hefur nú misst öll völd í sveitarfélaginu. Hvers vegna skyldi það nú vera?

- Ólafur Arnarson