Blekkingar og rangfærslur frambjóðandans

Þegar verja þarf vondan málstað er ekki úr vegi að byrja á því að afvegaleiða umræðuna og reyna að gera mótherjana tortryggilega. Ekki verður betur séð en að einmitt þetta sé hernaðaráætlun Valhallar fyrir komandi Alþingiskosningar. Raunar ekki ný hernaðaráætlun þar á bæ enda er Sjálfstæðisflokkurinn í raun orðinn eins máls flokkur. Flokkurinn sem eitt sinn stóð fyrir viðskiptafrelsi og heilbrigða samkeppni er genginn í björg og núorðið snýst tilvera hans eingöngu um varðstöðu um gjafakvótakerfi í sjávarútvegi sem á hverju einasta ári flytur milljarðatugi í vasa handhafa kvótans.

Líkast til felur gjafafyrirkomulag kvótakerfisins hér á landi í sér stærstu eignatilfærslu sögunnar. Ef handhafar aflaheimilda í fiskveiðilögsögu Íslands greiddu íslenska ríkinu fullt endurgjald fyrir afnot af þjóðarauðlindinni væru ekki vandræði með að fjármagna lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna til framtíðar, ekki hefði þurft að stytta framhaldsskólann um eitt ár til að spara ríkinu fjármuni, heilbrigðiskerfið þyrfti ekki að líða eilífan skort og búa mætti öldruðum áhyggjulaust ævikvöld og öryrkjum mannsæmandi lífskjör. En þessum hagsmunum fjöldans fórnar Sjálfstæðisflokkurinn fúslega á altari hagsmuna handhafa kvótans. Og, merkilegt nokk, nýtur til þess fulltingis Vinstri grænna.

Já, þegar verja þarf vondan málstað er sennilega best að afvegaleiða umræðuna og ráðast á andstæðingana – saka þá um að ætla sér að færa útlendingum fjöreggið. Nákvæmlega þetta er það sem ungur og hámenntaður frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins gerir í grein á Vísi, laugardaginn 21. ágúst og tekur um leið að sér að skilgreina sjávarútvegsstefnu Viðreisnar og „útskýra“ fyrir óbreyttum almúganum.

Frambjóðandinn ungi heldur því fram að Viðreisn vilji „afnema íslensku fiskveiðilöggjöfina til að greiða leiðina fyrir yfirráðum ESB yfir fiskimiðunum.“ Áfram heldur frambjóðandinn og opinberar fullkomna vanþekkingu sína á reglu ESB um hlutfallslegan stöðugleika, en sú regla þýðir að ESB-þjóðir sem ekki hafa veiðireynslu innan landhelgi annarrar ESB-þjóðar síðustu 5-10 árin fá ekki aflaheimildir þar. Margra alda saga um veiðar innan landhelginnar skiptir engu máli ef þeirri veiðisögu lauk fyrir áratug. Staðreyndin er sú að í næstum hálfa öld hafa Íslendingar setið einir að veiðum hér við land. Frambjóðandinn fullyrðir að reglunni um hlutfallslegan stöðugleika megi breyta hvenær sem er. Aðstoðarmaður utanríkisráðherra ætti að vita betur. Til að breyta reglum ESB þurfa öll aðildarríki að samþykkja breytinguna. Hvert og eitt ríki hefur neitunarvald. Þannig myndi aðild Íslands að ESB tryggja að þessari reglu yrði aldrei breytt.

Frambjóðandinn vísar í greinar um kvótahopp og áhyggjur spænska sjávarútvegsráðherrans vegna útgöngu Bretlands úr ESB sem rök gegn mögulegri aðild Íslands að ESB. Einhverra hluta vegna virðist frambjóðandinn ekki vita að grundvallareðlismunur er á fiskistofnum í íslenskri fiskveiðilögsögu og þeim fiskistofnum sem sameiginleg sjávarútvegsstefna ESB tekur til. Sameiginlega sjávarútvegsstefnan er til komin vegna þess að Bretland og önnur ríki ESB veiða úr sömu stofnunum sem flakka milli lögsögu ríkjanna. Þess vegna eru spænsk skip að veiða við Bretland og bresk skip niður með öllu meginlandi Evrópu. Íslensku stofnarnir eru ekki hluti þessara flökkustofna.

Þá virðist frambjóðandinn haldinn þeim misskilningi að Malta hafi fengið undanþágu frá sjávarútvegsstefnu ESB. Svo er ekki. ESB veitir ekki varanlegar undanþágur frá reglum sambandsins. Malta óskaði hins vegar eftir varanlegri sérlausn vegna grundvallarhagsmuna ríkisins á sviði sjávarútvegs. ESB býður varanlegar sérlausnir um grundvallarhagsmuni ríkja sem semja um aðild að sambandinu. Öll ríki sem orðið hafa aðildarríki ESB hafa fengið varanlegar sérlausnir vegna sinna grundvallarhagsmuna.

En ESB býður ekki varanlegar sérlausnir að fyrra bragði. Umsóknarríki verða að setja fram kröfur um varanlegar sérlausnir vegna grundvallarhagsmuna sinna. Það gerði Ísland ekki í aðildarviðræðunum sem nú eru í bið. Ástæðan var sú að Heimssýnarráðherrann Jón Bjarnason réð ríkjum í Sjávarútvegsráðuneytinu og engin samningsmarkmið komu fram í sjávarútvegsmálum af okkar hálfu, hvað þá skilgreining á grundvallarhagsmunum sem kölluðu á sérlausnir, vegna þess að hann einfaldlega stöðvaði alla vinnu við ESB-umsóknina í sínu ráðuneyti til þess að bregða fæti fyrir vilja Alþingis. Þess vegna hefur ekki reynt á hvort sérlausn fáist varðandi t.d. það hvort okkur sé heimilt að banna fjárfestingar annarra en íslenskra ríkisborgara í sjávarútvegi hér á landi. Ekkert bendir til að ESB legðist gegn varanlegri íslenskri sérlausn í sjávarútvegsmálum. Við þurfum hins vegar að biðja um hana sjálf en ekki bíða eftir að ESB komi færandi hendi að fyrra bragði.

Ekki byrjar pólitískur ferill unga frambjóðandans gæfulega. Einhverjir myndu segja að þarna hefði frambjóðandinn farið útaf í fyrstu beygju. Misskilningurinn er svo margþættur að greinin er ein hringavitleysa.

-       Ólafur Arnarson