Atlaga gerð að jóni gunnarssyni í kraganum

Hart er tekist á í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi sem fram fer nú um helgina. Vart verður mikils titrings meðal frambjóðenda eftir að ljóst varð að Þorgerður Katrín muni leiða lista Viðreisnar í kjördæminu. Frambjóðendur meta það þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hljóti að tapa fylgi og þingsætum í kjördæminu vegna þessa. Því verður baráttan enn grimmari milli þeirra sem taka þátt í prófkjörinu.

Talið var að full sátt yrði um að velja Bjarna Benediktsson í fyrsta sætið og Jón Gunnarsson, þann dugmikla þingmann og formann atvinnumálanefndar, í annað sætið. Hann kemur úr Kópavogi sem er langstærsta einingin í kjördæminu og þar er staða flokksins allsterk. En nú berast þær fréttir úr kjördæminu að Óli Björn Kárason fari mikinn  í kosningabaráttunni til að reyna að ná öðru sætinu sem flestir hafa talið sjálfsagt að Jón hlyti. Hann mun nýta sér kosningasmala úr Reykjavík við smölun sína. Það sem mörgum finnst verra er að Óli Björn og fylgismenn hans reka neikvæðan áróður um Jón, frekar en að freista þess tíunda kosti Óla Björns (sem reyndar eru vandfundnir). Sagt er að Jón Gunnarsson sé ekkert annað en gæslumaður sérhagsmuna í sjávarútvegi og hvalveiðum.

Óli Björn Kárason er varaþingmaður flokksins í þessu kjördæmi. Hann hefur margreynt fyrir sér í prófkjörum og jafnan hlotið lítið fylgi. Þykir hann ekki líklegur til að geta hjálpað til við að gera lista flokksins áhugaverðan í þeim hörðu kosningum sem framundan eru. Auk þess á Óli Björn Kárason afar brogaða fortíð í viðskiptum sem eðlilegt er að minnt sé á þegar hann gerir nú atlögu að þingsæti og beitir niðurrifsáróðri gagnvart meðframbjóðendum sínum.

Í DV birtist þann 12. apríl 2010 frétt sem fjallaði um þá fjölmiðlamenn sem skulduðu hæstu lánin sem bankar þurftu að fella niður í hruninu. Vísað var til skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Björn Ingi Hrafnsson var þar efstur á blaði með 563 milljón króna skuldir. Svo sagði orðrétt í frétt DV:

“Óli Björn Kárason skuldaði litlu minna en Björn Ingi. Hann skuldaði, síðla árs 2005, 478 milljónir króna en á þeim tíma var hann eigandi og útgáfustjóri Viðskiptablaðsins. Lánin voru öll veitt frá Kaupþingi og voru flest veitt til ÓB-fjárfestingar (í eigu Óla Björns) og félaga í meirihlutaeigu þess félags. Eitt þeirra gaf út Viðskiptablaðið.”

Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hljóta að eiga sér þann draum að Óli Björn Kárason hljóti annað sætið í Kraganum á eftir Bjarna Benediktssyni. Þá sætu þér hlið við hlið efst á lista Sjálfstæðisflokksins,  sjálfur greifinn af Tortóla og þessi skuldakóngur úr hruninu.