Andleg kreppa katrínar í lýsi

Viðskiptablaðið hefur birt óttalegt væluviðtal Katrínu Pétursdóttur forstjóra Lýsis þar sem hún heldur því fram að íslensk þjóð sé enn í andlegri kreppu eftir hrunið.

Við lestur viðtalsins er ekki að sjá nein rök fyrir þessari fullyrðingu Katrínar. Hún segir að allir séu að tala illa um atvinnulífið og fyrirtækin á Íslandi sem flest hver gangi svo vel og séu að gera stórkostlega hluti sem ekkert sé metið að verðleikum.

Það er ósköp raunarlegt að fylgjast með svona væli í forstjóra sem hefur fengið allt upp í hendurnar, notið ómældrar fyrirgreiðslu bankakerfisins og verið hampað í atvinnulífinu.

Það er rangt að fyrirtækjum sé ekki hrósað fyrir það sem vel er gert. Sem betur fer er víða góður gangur í rekstri fyrirtækja sem almenningur í landinu tekur fagnandi og er tilbúinn að hrósa og þakka fyrir.

Forstjóri Lýsis hefur engin rök fyrir að segja þjóðina í andlegri kreppu þó oft komi fram eðlileg gagnrýni á gjafakvótakerfið, austur á skattpeningum í landbúnaðarsukkið og reiði yfir milljarðaafskriftum til valinna athafnamanna.

Katrín hefði í þessu glansviðtali gjarnan mátt víkja að þeim milljarðaafskriftum sem hún naut eftir hrunið. Dagfara rekur m.a. minni til að félag í hennar eigu hafi orðið gjaldþrota upp á 2,8 milljarða króna í fyrra án þess nokkrar eignir hafi fundist í þrotabúinu. Þetta finnst henni greinilega ekki það stórt mál að taki því að nefna í svona viðtali.

Þá hefði verið afar forvitnilegt að fá betur upplýst hvernig Katrín \"seldi\" fyrirtækið Lýsi eftir hrun og hvernig hún svo \"keypti\" það síðar.

Hverjir komu aftur við sögu í þeim vafningum? Hve mikið var afskrifað af skuldum og hvaðan komu fyrirmæli um það?

Þetta var ekki nefnt í viðtalinu.
Tæpast er forstjórinn búinn að gleyma þessu.

Dagfari mun e.t.v. rifja þetta og fleira upp til öryggis enda er hann ekki í neinni andlegri kreppu.