Verða þrír forstjórar hjá icelandair?

Til þess að yfirtaka Icelandair Group á WOW gangi hratt, vel og farsællega fyrir sig þarf Samkeppniseftirlitið að ljúka sínu verki á skömmum tíma annars er hætta á að samruninn renni út í sandinn.

 

Viðfangsefni Samkeppniseftirlitsins er með allt öðrum hætti í þessu tilviki en þegar fyrirtæki sem starfa alfarið á innanlandsmarkaði sameinast. Flugfélögin starfa á alþjóðlegum markaði og 27 erlend flugfélög hafa haldið uppi flugi til og frá Íslandi á þessu ári. Því steðjar engin hætta að íslenskum neytendum þó þessi tvö félög sameinist. Forsvarsmenn þeirra vita að þeim mun ekki líðast að hækka flugfargjöld óhóflega því með slíkri háttsemi væru þeir að rétta einhverjum þessara 27 erlendu flugfélaga mikil viðskipti á silfurfati. 

 

Þannig hlýtur að mega ætla að verkefni Samkeppniseftirlitsins sé tiltölulega einfalt í þessu tilviki og ætti að geta gengið hratt fyrir sig. Ef þessi stofnun tekur sér óhólfega langan tíma í verkefnið, þá er það mjög alvarlegt mál sem varla verður látið viðgangast því Samkeppniseftirlitið á ekki að haga sér eins og ríki í ríkinu og embættismenn þess hafa ekki þegið vald sitt frá Guði. Yfir stofnuninni er stjórn sem skipuð er af ráðherra sem valinn er af meirihluta réttkjörins Alþingis í lýðræðislegum kosningum.

 

Ætla má að Samlkeppniseftirlitið leysi málið hratt og einfaldlega með því að heimila samrunann með skilyrðum sem einkum snérust um það að sjálfstæði WOW yrði tryggt sem dótturfélags innan samstæðu Icelandair Group. Það yrði gert með þeim hætti að séstök stjórn væri yfir WOW sem mætti ekki vera skipuð yfirmönnum eða stjórnarmönnum Icelandair Group. Yfir þessu rekstri yrði sérstakur forstjóri. Sama fyrirkomulag yrði þá væntanlega varðandi Icelandair millilandafllugfélagið innan Icelandair Group. Sjálfstæð stjórn yrði yfir þeim rekstri og sérstakur forstjóri. Móðurfélagið Icelandair Group lyti svo þeirri stjórn sem nú er og var kjörin á aðalfundi í mars sl. Og vitanlega yrði sérstakur forstjóri yfir móðurfélaginu. Með þessu yrðu tryggð viss armslengdarsjónarmið sem Samkeppniseftirlitið ætti að geta sætt sig við.

 

Verði þetta niðurstaðan gæti Ragnhildur Geirsdóttir, núverandi aðstoðarforstjóri WOW, orðið forstjóri WOW, Bogi Níls Bogason gæti orðið forstjóri Icelandair millilandafélagsins og svo yrði ráðinn nýr forstjóri til Icelandair Group en stjórn félagsins hefur leitað hans bæði hér á landi og erlendis í tvo mánuði.

 

Gengi allt upp eins og samkomulagið gerir ráð fyrir þá þyrfti ekki að koma á óvart að Skúli Mogensen tæki sæti í stjórn Icelandair Group enda væri hann þá orðinn langstærsti einkafjárfestirinn í félaginu.

 

Rtá.