Utanríkisráðherra með undirtökin

 

Svo virðist sem utanríkisráðherra hafi haldið undirtökunum í þeirri glímu sem stigin hefur verið síðustu daga um grundvallarbreytingu á utanríkisstefnu landsins.  Ekki er þó víst að kálið sé sopið þótt í ausuna sé komið.

Þessi átök um að breyta utanríkisstefnunni vegna makrílsölu til Rússlands eru eitthvert sérstæðasta mál sem upp hefur komið í pólitík um langan tíma. Upphaflega bera Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi kröfuna fram undir merkjum hagsmunagæslu. Margt bendir hins vegar til að dýpri pólitískar rætur liggi þar að baki.

Ofsafengin árás Morgunblaðsins á utanríkisráðherra og embættismenn utanríkisráðuneytisins og harkaleg gagnrýni Kaupfélags Skagfirðinga, sem jafnframt annast ræðismennsku fyrir Rússland, setti málið óneitanlega í pólitískt samhengi.  Kaupfélagið er eins og kunnugt er einn helsti áhrifaaðilinn í útgáfufélagi Morgunblaðsins.

Það var svo eftir að þessir öflugustu bakhjarlar stjórnarflokkanna létu í sér heyra að formaður Sjálfstæðisflokksins steig fram og taldi rétt að hlusta á þá sem tala fyrir kúvendingu í utanríkismálum. Formaður Framsóknar hafði áður talað í þá veru. Báðir höfðu þó í upphafi samþykkt aðild Íslands að aðgerðum bandalagsþjóðanna.

Það þarf býsna mikið til að standa slíka atlögu af sér. Einhugur utanríkisnefndar undir forystu Birgis Ármannssonar hefur ugglaust ráðið mestu um að utanríkisráðherra hefur ekki verið beygður í þessum átökum.

Pólitík fremur en hagsmunir 

Þegar að er gáð vísar ýmislegt til þess að málið snúist meir um pólitík en hagsmuni.

Hafa verður í huga að markaðserfiðleikarnir í Rússlandi voru byrjaðir á síðasta ári. Það er með öðrum orðum langt síðan ljóst var að Rússar gætu ekki haldið áfram að kaupa makríl á sama verði. Kvartanir útvegsmanna hófust löngu áður en innflutningsbannið var sett. Rússland er einfaldlega í djúpri kreppu og á ekki lengur gjaldeyri til að kaupa makríl á hærra verði en aðrir.

Þá verður að hafa í huga að verðbreytingar á makríl á einu ári nema ekki hærri tölum en jafngilda aukningu í tekjum ferðaþjónustunnar á einum eða tveimur mánuðum. Það réttlætir ekki að Ísland hætti áratuga samstöðu með þeim bandalagsþjóðum þar sem helstu viðskiptahagsmunirnir liggja.

Þegar sú grundvallarbreyting var gerð með frjálsu framsali aflaheimilda að eigið fé mátti myndast í sjávarútvegsfyrirtækjum var ein helsta pólitíska röksemdin fyrir því sú að útvegurinn tækist sjálfur á við venjulegar sveiflur í greininni. Það hefur hann gert þangað til nú.

Sú markaðssveifla sem hér er um að ræða er vel innan þeirra marka sem sjávarútvegurinn ræður við. Það hljóta því að vera aðrar ástæður en þær sem lúta að hagsmunum greinarinnar sem knýja menn til að grafa undan þessari forsendu fiskveiðistjórnunarkerfisins með pólitískri kröfu um að kúvenda utanríkispólitíkinni.

Sjávarútvegurinn virðist vera tilbúinn að  fórna einum helstu rökunum fyrir frjálsu framsali til þess að taka undir með pólitík öfgaflokka lengst til hægri í evrópskum stjórnmálum.

Af þessum augljósu staðreyndum verður varla dregin önnur ályktun en sú að menn hafi verið að nota þá erfiðleika sem eðlilega fylgja verðlækkun á makríl til að knýja á um framkvæmd þeirrar stefnumörkunar í stjórnarsáttmálanum þar sem ekki er vikið að vestrænu samstarfi heldur ákveðið að færa Ísland í hóp nýmarkaðsríkja með Rússlandi og Kína.

Utanríkisráðherra hefur lítið aðhafst til að koma þessu markmiði stjórnarsáttmálans í framkvæmd. Ekki er því ósennilegt að meiri áhugamenn um þessa stefnubreytingu í stjórnarflokkunum hafi ákveðið að þyrla upp moldvirðri í kringum makrílinn til þess að hrinda utanríkisráðherra út í framkvæmd hennar án umræðu um grundvallaratriði utanríkisstefnunnar og framtíðarhagsmuni þjóðarinnar í þeim efnum.

Leiknum er ekki lokið

Þótt utanríkisráðherra hafi unnið þessa lotu er stríðið ekki búið. Í stað leiftursóknar er líklegt að reynt verði að ná markmiðinu með minni skrefum eins og fram kom í viðtali forseta Íslands við sendiherra Rússlands í vikunni. Sá fundur mun hafa verið í umboði forsætisráðherra.

Þá er ekki ólíklegt að reynt verði að sækja að þeim sem málið hefur helst brotnað á. Utanríkisráðherra og formaður utanríkisnefndar eru þar í fremstu víglínu.

Þótt utanríkisráðherra hafi styrkt pólitíska stöðu sína verulega gagnvart almenningi þarf hann vafalaust að huga að fótfestu sinni í kjördæminu þar sem Kaupfélag Skagfirðinga er allsráðandi í hans flokki. Formaður utanríkisnefndar gæti líka þurft að hafa fyrir því að halda stöðu sinni.

Djúp pólitísk átök eins og þessi geta því sett mark sitt á pólitíkina bæði á yfirborðinu og undir því um lengri tíma.