Þór Whitehead er enginn venjulegur flokksmaður

Þór Whitehead er enginn venjulegur flokksmaður

Þegar Þór Whitehead, fyrrum prófessor í sagnfræði, er nóg boðið vegna metnaðarleysis formanns Sjálfstæðisflokksins, þá er mikið að í flokknum. Þór hefur verið í innsta kjarna flokksins í hálfa öld, allt frá því hann sat í stjórn Heimdallar á sjöunda áratug síðustu aldar. Þór var einnig í svonefndum Eimreiðarhópi sem taldi alla helstu forystumenn Sjálfstæðisflokksins af kynslóð Þórs. Þar á meðal voru Þorstein Pálsson, Davíð Oddsson, Geir Haarde, Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Baldur Guðlaugsson. Þór Whitehead er því enginn venjulegur flokksmaður, heldur einn af máttarstólpum flokksins um áratugaskeið.

Þór birtir harðorða grein í Morgunblaðinu sl. mánudag þar sem hann lýsir mikilli furðu og sárum vonbrigðum með geðleysi forystu flokksins sem virðist vera þess aðbúin að rétta Vinstri grænum ríkisstjórnarforystu baráttulaust á silfurfati. Hann bendir á að Sjálfstæðisflokkurinn sé þrátt fyrir allt stærsti flokkur landsins, mun stærri en Vinstri grænir. Orðrétt segir Þór:

“Eitt er víst, að enginn formaður hægriflokks, miðflokks eða jafnaðarmannaflokks, sem nyti mests kjörfylgis í vestrænu landi, myndi sætta sig við ríkisstjórnarforystu mun ninni flokks, sem kenndi sig við vinstri róttækni, jafnvel þótt völ væri á jafngeðþekku forsætisráðherraefni og Katrínu Jakobsdóttur. Verði af væntanlegri stjórnarmyndun á hún sér áreiðanlega ekkert fordæmi í stjórnmálasögu Evrópu. Það ætti að vera fylgismönnum Sjálfstæðisflokksins til umhugsunar um, hvað formanninum og þingflokknum gangi til með ósíngirni sinni og hvaða áhrif hún geti haft á stöðu flokksins í framtíðinni.”

Forysta Sjálfstæðisflokksins virðist hugsa um það eitt að halda flokknum við völd, hanga inni í ríkisstjórn, jafnvel þó formaður flokksins sé niðurlægður með því að þurfa að víkja úr embætti forsætisráðherra fyrir formanni mun minni flokks. Grundvallarskoðanir Sjálfstæðisflokksins víkja fyrir ráðherrastólum. Flokkurinn hikar ekki við að svíkja kosningaloforð og stefnumál sín til þess eins að halda í völdin. Þessi sviksemi gagnvart kjósendum er hættuleg og gæti hæglega bitnað á flokknum með harkalegum hætti í næstu Alþingiskosningum og jafnvel strax í sveitarstjórnarkosningum næsta vor. Flokksmenn eru sárir og kjósendur telja sig svikna. Það getur ekki endað nema á einn veg.

Þegar Bjarni Benediktsson verður búinn að leiða formanna Vinstri grænna til öndvegis í nýrri ríkisstjórn, fyrstan sósíalistaleiðtoga á Íslandi, þá ætti hann að nýta fyrsta tækifæri til að láta staðar numið, stíga niður í íslenskum stjórnmálum og taka sér eitthvað annað fyrir hendur. Honum gefst tækifæri til þess á landsfundi flokksins næsta vor.

Forystuskipti eru Sjálfstæðisflokknum lífsnauðsyn. Flokkurinn getur ekki lengur unað við laskaðan formann og flokksmönnum er ekki lengur bjóðandi að þurfa að verja umdeild fjármálaumsvif formannsins og fjölskyldu hans. Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að vera skálkaskjól fyrir þá sem vilja braska með völd og peninga.

Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki gert endanlega upp við Hrunið nema með formannsskiptum. Flokksins vegna gerist það vonandi á nýju ári.

 

Rtá.

Nýjast