Klikkuð vika hjá tobbu og allt gengur á afturfótunum rétt fyrir giftingu: „ég hef misst vitið“

„Við sambýlismaður minn ætlum að gifta okkur 19. september á Ítalíu – sem er ekki frásögu færandi nema fyrir það að ég féll í þá gryfju sem ég lofaði sjálfri mér og móður minni að gera ekki. Ég breyttist í Bridezillu. Lét gabbast af þeirri mýtu að ég yrði að umbreyta sjálfri mér fyrir brúðkaupið. Helst þannig að sambýlismaður minn í næstum áratug myndi ekki þekkja mig.“

Þetta segir Tobba Marinósdóttir í pistli á vef Mannlífs. Hún segir vikuna hafa verið með þeim „klikkaðri“ í þónokkurn tíma. Tobba og Karl Sigurðsson fyrrverandi borgarfulltrúi, oft kenndur við Baggalút, stefna að því að giftast eftir nokkra daga. Undirbúningurinn hefur þó gengið á afturfótunum og skrifaði Tobba bráðfyndin pistil sem hún birti á vef Mannlífs. Tobba Marinós segir: „ ... geri ég mér grein fyrir að ég hef misst vitið. Vonandi tímabundið.“ Tobba er að taka djúsföstur til að reyna að ná kjörþyngd á sem stystum tíma. Hún segir:

„Síðustu viku hef ég átt í mesta basli með að pissa ekki á mig á almannafæri [...] Að pissa stanslaust er svo sem í lagi geti maður hangið heima hjá sér allan daginn. En það getur Bridezilla ekki. Hún þarf auðvitað að fara í ræktina (í tvöfaldan tíma), plokkun, litun, vax, fótsnyrtingu, nærfataleiðangur, klippingu og strípur, hvítun, brúnkun, neglur og ýmislegt annað. Kalli hinsvegar fór í göngutúr og klippingu og er tilbúinn! Aldrei litið betur út. Helv..“

Tobba bætir við að þá hafi allir á heimilinu laggst í flensu skömmu fyrir brúðkaupið. Yngsta barnið sem er ekki í dagvistun hafi verið með 40 stiga hita og hún sjálf ekki sofið vegna stöðugra klósettferða og harðsperra. Og hvað gerir hún þá? Tobba segir:

„Jú, hún trítar sig með rauðvínsglasi! Á tóman maga. Snarhressist og pantar nokkrar auka seríur og confettiblöðrur og allskonar eitthvað annað í pastellitum sem rennur saman í ljósinu á tölvuskjánum um miðja nótt. Tekur því að fara að sofa? Stutt í að ungabarnið vakni og fyrra flugið af tveimur á leiðnni til Ítalíu er í fyrramálið. Tannkulið eftir hvíttunargelið heldur líka fyrir mér vöku.“ Þá segir Tobba að lokum:

„Nú eru innan við tvær vikur í brúðkaup. Hvað ætli sé það versta sem getur gerst?“