Heimavöllur vivaldi-vafrans er á gróttu

Jón Stephenson von Tetzchner vakti athygli í kringum aldamótin með netvafranum Opera. Hann er nú mættur til leiks með nýjan og að mörgu leyti byltingarkenndan vafra, Vivaldi. Vivaldi hefur þegar fengið stórgóðar viðtökur, milljónir hafa hlaðið honum niður og líkar vel.

Jón ólst upp á Seltjarnarnesinu en fór utan tvítugur og hefur starfað erlendis síðan en römm er sú taug sem bindur hann við Ísland enda var Vivaldi meðal annars hannaður úti á Seltjarnarnesi og Gróttuvöllurinn er heimavöllur Vivaldi.

Tóti hringdi í Jóns til Oslóar í síðdegisþætti sínum á Hringbraut FM 89.1 og fékk að vita ýmislegt um Vivaldi, taugar Jóns til Íslands og þá heimsathygli sem landið hefur fengið síðustu vikur.

Vivaldi er hannaður á Íslandi og í Noregi og „stór hluti teymisins er úti á Seltjarnarnesi sem gerir Vivaldi enn frekar svolítið sérstakan vafra. Að hann er hannaður á Íslandi og í Noregi,“ sagði Jón sem heldur í ræturnar sem ligga út á nes þar sem Gróttuvöllurinn er Vivaldi-völlurinn.

„Ég er auðvitað alinn upp á Seltjarnarnesi og það var rosalega gaman að fá þennan möguleika til að vinna með Gróttu þar. Þetta er liðið sem ég spilaði með. Ég get ekki sagt að ég hafi verið neinn stórspilari en það var rosalega gaman,“ sagði Jón.

Vivaldi fer á móti straumnum

Jón segir Vivaldi í raun fara í þveröfuga átt miðað við aðra vafra eins og til dæmis Explorer, Google Chrome og Firefox. Þar sé stöðugt unnið að því að gera vafrana einfaldari „sem er auðvitað þannig séð frábært alveg þangað til þú ferð að gera eitthvað skemmtilegt og flólkið.“

Og Jón heldur áfram: „Þetta er auðvitað bara allt annar vaftri og þegar þú opnar hann fyrst þá sérðu að hann lítur dálítið öðruvísi út. Hann er litríkari og ég myndi segja flottari í útliti,“ segir Jón og bætir við að hann hafi fengið til liðs við sig mjög flinka stráka til þess að hanna vafrann. „Svo þegar þú ferð að nota hann sérðu að það er fullt fídusum sem engir aðrir hafa.“

Jón var á sínum tíma einn stofnenda Opera Software sem kynnti vafrann Opera til sögunnar um aldamótin. „Ég hef unnið með vafra þannig séð frá 1994. Ég hætti í Operu 2010-2011 og hafði ekki ætlað mér að búa til vafra aftur en svo fundum við nýjar þarfir og byggðum Vivaldi og höfum fengið frábærar móttökur. Milljónir eru búnar að hlaða honum niður og fólk er bara svo hrifið og það er ofboðslega gaman þegar maður er að búa til eitthvað sem fólki líkar vel við.“

Jón segir notendur Vivaldi duglega við að bæði hrósa vafranum og benda á hluti sem þeir vilja sjá í honum. Og hann og hans fólk tekur endalaust við ábendingum frá notendum, bregst við og bætir við fídusum. „Ef fólk biður um hlutina þá bara búum við þá til fyrir það.“ Vafrinn er þannig í stöðugri þróun.

Ákvað að fjármagna Vivaldi einn

„Tilfinningin sem við erum að leita að er að fólki finnist vafrinn hafa verið hanaður fyrir það persónulega,“ segir Jón sem kaus að fjármagna Vivaldi einn síns liðs. „Þetta er sóló. Ég var með dálítið erfiða fjárfesta í Operu og til þess að forðast slíkt hef ég ákveðið að gera þetta einn. „Það hefur reyndar verið mikill áhugi hjá fjárfestum að koma inn en við gerum þetta bara sjálf og það er skemmtilegast.“

En fyrst Opera og nú Vivaldi. Er Jon músíkalskur?

„Ég vildi óska að ég væri það. Þegar ég var lítill þá langaði mig til að verða tónskáld. Aðrir vildu verða lögga og eitthvað svona en ég vildi verða tónskáld fyrstu árin. Alveg þangað til ég fann út að ég væri nörd og fór í tölvugeirann í staðinn. En fyrstu
árin var þetta draumurinn og það getur verið að það liggi eitthvað það eftir.“

Þótt Jón hafi lengi dvalið erlendis togar Ísland alltaf í hann og hann segist reyna að komast hingað sem oftast. Hér finnist honum gaman að vera. Og hann hefur verið duglegur við að koma Íslandi að í öllum sínum viðskiptum. „Það er augljóst. Þegar maður fer svona út verður maður þá ekki bara ennþá meiri Íslendingur? Ég flutti út tvítugur og búinn að vera úti lengi en er með ánægður með að geta verið að gera eitthvað á Íslandi.“

Jón hrærist í umhverfi alþjóðaviðskipta og hefur því eðlilega orðið mjög var við þá athygli sem Ísland hefur fengið í kjölfar Panama-skandalsins. „Ég held að fólki finnist þetta mjög athyglisvert og þetta er auðvitað mjög sértsök staða, þegar maður fer inn á CNN og BBC og það er mynd af Sigmundi Davíð á forsíðunni á báðum stöðum. Það er dálítið sérstakt. Það eru margir sem ræða þetta við mig og það taka allir eftir þessu. Bara allir.“

Hægt er að hlusta á samtal Jons og Tóta á Hringbraut FM 89.1 hér.

Meira um Vivaldi

sem hægt er að sækja Hér 


Á meðan aðrir vafrar verða stöðugt einfaldari er lögð áhersla á það við þróun Vivaldi að bæta stöðugt við nýjum eiginleikum til þess að gera vefnotkun skilvirkari og öflugri og uppfylla þannig kröfur notenda. Vivaldi vafrinn er þróaður af samhentu teymi frumkvöðla með Jón Von Tetzchner í fararbroddi.

Hér er yfirlit yfir nokkra einstaka eiginleika vafrans:

Flipabunkar: 
Skipuleggðu flipana þína með flipabunkum; frábær stilling sem gerir þér kleift að hópa saman mörgum flipum í einn. Það verður ekki betra en þetta - dragðu flipa yfir annan fyrir einfalda flokkun.

Röðun flipabunka:
Ertu með stóran skjá? Raðaðu upp flipabunkum og skoðaðu margar síður á sama tíma! Margfaldir flipabunka gera sama gagn og margfaldir skjáir!

Setur (e. sessions): Færðu stjórn vafrans upp á æðra plan. Vistaðu uppáhalds flipabunkana þína þannig að þú hafir greiðan aðgang að þeim síðar, nákvæmlega eins og þú skildir við þá.

Minnispunktar: Skrifaðu minnispunkta og bættu við skjámyndum af vefsíðum um leið og þú vafrar. Geymdu viðhengi og bættu vefslóð við til þess að skipuleggja þig og finna hlutina auðveldlega seinna.

Flýtilyklar (e. Quick Commands): Gera þér kleift að leita í opnum flipum, bókamerkjum, sögu, stillingum og fleiru með einni lyklaborðsflýtileið. Flýtilyklavalmyndina er hægt að aðlaga að þínum þörfum, þú getur búið til þína eigin lykla.
 

Músarbendingar og lyklaborðsflakk: Ef þú vilt vinna á ljóshraða á netinu eru músarbendingar og lyklaborðsflakk eitthvað fyrir þig.

Flýtiskipanir: Þú getur nálgast uppáhalds síðurnar þínar og bókamerki frá hvaða opnum flipa sem er.

Betri bókamerki: Ef að þú notar bókamerki mikið, þá ert þú á réttum stað! Með bókamerkja stýriborði Vivaldi getur þú skipulagt og komist í bókamerkin auðveldlega. Þú getur sett þín eigin efnisorð og gælunöfn til þess að hafa hraðan aðgang að bókamerkjum. 

Vefspjöld: Vefspjöld leyfa þér að skoða síður á spjaldi í hliðarborða í Vivaldi vafranum. Lestu fréttir, fylgstu með umræðum á samfélagsmiðlum, spjallaðu við vini þína og miklu meira, allt meðan þú notar aðalglugga vafrans aðskilið.

Sérsniðinn: Vivaldi vafrinn gerir þér kleift að gera hlutina á þinn hátt, hann aðlagar sig að þínum þörfum en ekki öfugt. Viltu frekar hafa vafraflipana neðst eða til hliðar? - Viltu heldur færa veffangastikuna eitthvert annað? Prófaðu að velja stillingar sem henta þér s.s. lyklaborðsflýtileiðir, músarbendingar (e. mouse gestures), útlit og svo framvegis. Vivaldi breytir litum meðan þú vafrar um vefinn. Líkt og kamelljón aðlagar hann sig að umhverfinu.