Benedikt hættir sem formaður

Hjarta Dagfara tók innstæðulausan gleðikipp um helgina þegar hann sá fyrirsögn í blöðum sem hljóðaði svona:
 
Benedikt hættir sem formaður.
 
Fyrstu viðbrögðin voru þau að trúa því að Benedikt Jóhannesson væri búinn að átta sig á því að hann þyrfti að láta af formennsku í Viðreisn enda er hann búinn að tapa helmingi fylgisins sem flokkurinn hlaut í kosningum fyrir rúmlega hálfu ári.
Hann ræður ekki við formannshlutverkið.
 
En þetta var því miður tálsýn. Benedikt er einungis að hætta sem formaður í ósköp meinlausum klúbbi sem heitir Hollvinafélag MR.
 
Því miður fyrir Viðreisn. En vonandi er hann farinn að gera sér ljóst að Viðreisn á sér ekki viðreisnar von nema skipt verði um karlinn í brúnni sem fyrst því karlinn í brúnni verður að fiska. Þessi karl er ekki að fiska eins og allar skoðanakannanir sýna glögglega.
 
Benedikt hefur yfirgefið öll helstu hugsjónamál Viðreisnar og selt kosningaloforð fyrir völd fjármálaráðherra.
Hann er uppteknari af því að auka skatta en að auka fylgi Viðreisnar að nýju. Hann er ófær um að leiða flokkinn. 
 
Fái Viðreisn ekki nýjan formann fljótlega þá bíða flokksins þau örlög að verða einnota eins og hent hefur fjölda flokka á Íslandi.
 
Viðreisn þarf nýjan formann og nýtt upphaf þar sem hugsjónir og grunngildi flokksins yrðu sett í öndvegi að nýju. Þau eru góð og mikilvæg. Viðreisn á erindi við okkur Íslendinga ef hún heldur stefnu sinni.
 
Til þess þarf nýjan formann. 
 
rtá.