Fór að hágráta á miðju sviðinu

Salka Sól í einkar persónulegu viðtali í Mannamáli í vikunni:

Fór að hágráta á miðju sviðinu

Söngkonan dáða, Salka Sól Eyfeld segir áhorfendum Mannamáls á Hringbraut alla söguna að baki áralöngu og erfiðu einelti sem hún varð fyrir á æskuárum sínum í Kópavogi en hún kveðst hafa verið mörg ár að vinna sig út úr þeirri erfiðu lífsreynslu - og standi ef til vill eftir sterkari og ákveðnari en ella.

Þátturinn var frumsýndur á fimmtudagskvöld og hefur vakið mikla athygli fyrir einlæga og opinskáa frásögn Sölku af því andlega ofbeldi sem hún varð fyrir á fyrstu unglingsárum sínum, en þáttinn má nú sjá hér á vef stöðvarinnar.

Það er áhrifamikið að hlusta á hana lýsa því hvernig hún féll saman á sviðinu á Hammond-hátíðinni á Djúpavogi mörgum árum eftir eineltið, en þangað var hún send á skólaárum sínum í æsku til að fá hvíld frá andlegu ofbeldinu; þarna stóð hún sumsé með hljómsveit sinni og sló í taktinn á áhrifamiklu lagi hennar, en kom ekki upp stakasta tóni þegar á reyndi af því minningarnar frá því í æsku hlóðust upp í huganum - og svo fór að hún fór að hágráta á sviðinu og varð að beygja af, láta sig hverfa aftur á baksvið og jafna sig á meðan hljómsveitin spilaði ein á framsviðinu og beið þess eins að söngkonan kæmi aftur fram og skilaði sínu. Það er nefnilega ekki alltaf svo að the show must go on eins og Salka Sól orðar það; stundum þurfi maður einfaldlega að leyfa sér að vera manneskja og sýna sínar raunverulega.tilfinningar fremur en að fólk reyni að fake it to they make it.

Í viðtalinu fer Salka Sól yfir söngferil sinn og fjallar ekki síður um sérstæða rödd sína sem hún átti erfitt með að sætta sig við í æsku því henni fannst hún frekar vera með strákarödd en blíða stelpurödd, en í dag sættir hún sig fullkomnlega við raddblæinn sem sé hennar einkennistákn í listinni.

Hún ræðir líka um komandi tónleika með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands þar sem stjórnandinn Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson mun leiða saman reggí-sveitina Amabadama og ómþýða klassíkina, en þar segir Salka Sól að tvær miklar ástríður renni saman í sérstæða heild. Tónleikarnir verða í byrjun 4. febrúar í Hofi og 25. febrúar í Hörpu og vænta unnendur Amabadama mikil af þeim.

Mannamál, eins persónuleg og þau gerast, eru frumsýnd öll fimmtudagskvöld á Hringbraut klukkan 20:30.

Nýjast