Sjálfstæðisflokkurinn í reykjavík logar vegna átaka um listann

Uppstillingarnefnd Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er margklofin vegna lista flokksins í vor. Eyþór Arnalds og meirihluti nefndarinnar vilja hreinsanir. Þar á meðal að bæði Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir víkji alveg af listanum en þau lentu í öðru og þriðja sæti í leiðtogaprófkjöri flokksins.

 

Rætt er um að Hildur Björnsdóttir lögfræðingur verði í öðru sæti listans. Hún er að mestu óþekkt en var formaður Stúdentaráðs fyrir níu árum. Fleiri nöfn hafa verið nefnd sem gætu tekið sæti ofarlega á lista flokksins. Þar á meðal Egill Þór Jónsson, Valgerður Sigurðardóttir og Marta Guðjónsdóttir sem hefur verið varamaður flokksins í borgarstjórn um árabil en ekki náð langt í prófkjörum hingað til. Enginn af þessum frambjóðendum er líklegur til að geta dregið mikið fylgi að lista flokksins.

 

Ljóst er að margir af forystumönnum flokksins í Reykjavík eru alls ekki sáttir við stöðu mála. Þannig hefur RÚV eftir formanni Varðar, Gísla Kr. Björnssyni, að hann fordæmi þau vinnubrögð að fara með fréttir að störfum uppstillingarnefndar í fjölmiðla þegar þau eiga að vera í fullum trúnaði. Halldór Halldórsson, fráfarandi oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík ítrekaði við RÚV óánægju sína með fámennan  hóp uppstillingarnefndar.

 

Sjálfstæðismenn í Reykjavík hafa leitað logandi ljósi að þekktu og vinsælu fólki til að lyfta ásýnd listans. Þannig hefur sjónum verið beint að þekktum íþróttahetjum, listamönnum og fjölmiðlafólki en að mestu án árangurs. Alla vega enn sem komið er.

 

Þó Áslaug og Kjartan hafi tapað í leiðtogaprófkjörinu eru margir flokksmenn ósáttir við að þeim verði ýtt út af lista flokksins nánast með skömm. Þau eiga bæði djúpar rætur í flokknum og hafa starfað þar lengi. Áslaug er dóttir Friðriks Sophussonar sem var um áratugaskeið dáður og vinsæll ráðherra og varaformaður flokksins. Kjartan er einnig fæddur inn í Sjálfstæðisflokkinn og hefur verið virkur þar í starfi frá unglingsárum.

 

Þessi framkoma við þau þykja kaldar kveðjur og víst er að flokksmenn í Reykjavík munu ekki allir taka þeim vel.

 

Rtá.