Vonandi man Bjarni eftir að nefna alla sjálfstæðismennina sem bera ábyrgð á samgöngusáttmálanum

Í dag ætlar Bjarni Benediktsson að ávarpa flokksmenn sína í Valhöll og fjalla um samgöngusáttmálann sem formenn allra stjórnarflokkanna undirrituðu gleiðbrosandi með forystufólki sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu árið 2019.

Ljóst er að hugmyndir ráðamanna frá þeim tíma um heildarkostnað hafa hækkað mikið vegna mikillar verðbólgu, vegna verðhækkana aðfanga í heiminum og vegna vanmats þeirra og fólksins sem hefur unnið að málinu frá upphafi.

Sjálfstæðismenn hafa þumbast við að reyna að kenna Reykjavíkurborg um þann vanda sem hér um ræðir. Slíkt er ekkert nema ómerkilegur pólitískur áróður á lágu plani. Reyndar er flestum orðið ljóst að skefjalaus rógur sjálfstæðismanna og Morgunblaðsins gagnvart borginni – en þó einkum borgarstjóranum – er kominn út fyrir öll velsæmismörk og farinn að virka þveröfugt. Sífellt er klifað á þröngum fjárhag borgarinnar af fólki sem ber ábyrgð á ríkisfjármálum sem rekin eru með viðvarandi methalla ár eftir ár. Mínusinn á ríkissjóði síðustu fjögur árin nemur meira en eitt þúsund milljörðum króna. Það er engin fjármálasnilli að leysa málin með seðlaprentun sem kyndir verðbólgubálið sem núverandi vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur ber höfuðábyrgð á.

Morgunblaðið birti heilsíðumynd af formanni flokksins í auglýsingu vegna þessa fundar. Slíkar myndir eru jafnan birtar daginn fyrir kosningar en nú þykir mikið liggja við. Það er í sjálfu sér gott að verkefni Betri byggðar, sem ríki og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu standa að, séu brotin til mergjar. Áformin eru stór og hrikalega dýr. Þau eru góðra gjalda verð og mikilvæg en dvergþjóðinni okkar er ofviða að ljúka þeim öllum á skömmum tíma. Gott að ráðamenn horfist í augu við það út frá staðreyndum en ekki út frá þröngu sjónarhorni pólitíska sandkassans sem þeim hættir til að falla í. Nú er mikilvægt að forgangsraða að nýju og takast á við verkefnin af skynsamlegu viti.

Ef menn þekkja forystu Sjálfstæðisflokksins rétt, þá er ætlunin með umræddum fundi í dag að halda áfram að kasta skít í meirihlutann í borgarstjórn Reykjavíkur og reyna að kenna honum um það sem er erfitt vegna þessa máls. En fólk sér í gegnum það. Kjósendur í Reykjavík eru orðnir vanir því að sjá í gegnum áróður Sjálfstæðisflokksins sem hefur verið að mestu valdalaus í borginni frá því árið 1994, í bráðum 30 ár. Hvers vegna skyldu kjósendur hafna flokknum í Reykjavík en ekki í nágrannabyggðunum?

Staðreyndin er sú að þeir sem mest hafa haft um þetta risaverkefni að segja eru upp til hópa sjálfstæðismenn. Skítkast um samgöngusáttmálann mun einungis hitta Sjálfstæðisflokkinn beint í andlitið. Skoðum hverjir eru persónur og leikendur í þessu risadæmi:

Við undirritun samningsins voru formenn ríkisstjórnarflokkanna mættir, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Forsætisráðherra vinstri stjórnarinnar, Katrín Jakobsdóttir formaður sósíalistanna, er glöð í bragð eins og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar. Frá borginni var borgarstjórinn Dagur B. Eggertsson og einnig bæjarstjórar allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu; sjálfstæðismennirnir Ármann Kr. Ólafsson, Rósa Guðbjartsdóttir, Gunnar Einarsson, Haraldur Sverrisson og Ásgerður Halldórsdóttir. Sem sagt: Einn kommi, einn Framsóknarmaður, einn frá Samfylkingunni en sex sjálfstæðismenn!

Í ljósi þessa ætti Bjarni Benediktsson ekki að reyna meira að benda fingri í allar áttir til að freista þess að vísa vandanum annað en heim í Valhöll. Og ekki batnar þessi samanburður þegar þess er gætt að formaður Betri byggðar, sem heldur utan um verkefnið, er enginn annar en hinn ágæti flokksmaður, Árni Mathiesen, fyrrum fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins. Með honum í stjórninni er einnig Gunnar Einarsson og framkvæmdastjórinn er Davíð Þorláksson, fyrrum formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna. Allt hið vænsta fólk og ekkert sem Sjálfstæðisflokkurinn þarf að skammast sín fyrir.

Bjarni Benediktsson ætti að nota fundinn í dag til að horfast í augu við þennan raunveruleika, hætta barnalegum og vonlausum áróðri gagnvart meirihluta miðjuflokkanna í borgarstjórn, taka forystu í að endurraða þessum dýru en brýnu verkefnum í mikilvægisröð og lyfta sér og flokki sínum upp fyrir brúnina á sandkassanum.

Bjarni getur styrkt sig sem stjórnmálamaður með því að lyfta umræðunni á „örlítið hærra plan“, eins og einu sinni var sagt af allt öðru tilefni. Fundurinn í dag er tækifæri sem gæti gagnast honum.

- Ólafur Arnarson