Við höfum ekkert við TÓLF ráðherra að gera

Íslensk stjórnvöld eru gersamlega að tapa sér í eyðslubrjálæði og taumlausri útþenslu ríkisbáknsins. Við erum á hraðri leið fram af eyðslubrúninni. Vitleysan byrjar á toppnum og hríslast niður eftir kerfinu því að eftir höfðinu dansa limirnir. Í stórmerkilegri grein Björns Jóns Bragasonar, sem birtist í Fréttablaðinu síðasta miðvikudag, er fjallað um þetta en hann hefur boðað nokkrar greinar í Fréttablaðinu um háskalega útþenslu ríkisbáknsins.

Stundum gleymist að við Íslendingar búum í dvergríki en högum okkur gjarnan eins og við séum milljónaþjóð. Vitanlega gengur það ekki til lengdar. Í grein Björns Jóns kemur fram á í Sviss búi 8,7 milljónir manna og að þar stjórni SJÖ manna ríkisstjórn og samt gengur öll stjórnsýsla ljómandi vel þar í landi.

Íbúar Íslands eru tæplega 380.000 en hér dugar ekki minna en að hafa TÓLF ráðherra til að stjórna landinu. Engin haldbær rök eru fyrir þessu fyrirkomulagi hér á landi. Hér er um hreint stjórnleysi að ræða, ranga hugsun og eitthvert sambland minnimáttarkenndar og mikilmennskubrjálæðis sem stundum verður vart hér á landi.

Til viðbótar við 12 ráðherra eru starfandi 24 aðstoðarmenn ráðherra og 12 ráðherrabílstjórar sem aka 12 ráðherrabílum af fínustu gerð því að landstjórn dvergríkisins þarf að hafa til taks allt það fínasta fyrir sig.

Kostnaður við þetta allt bruðl er óheyrilegur og fer sífellt vaxandi. Þegar núverandi vinstri stjórn var mynduð fyrr í vetur þurfti að bæta við einum ráðherra til að þjóna lund formanna stjórnarflokkanna, auk þess sem ákveðið var að hræra í skipan stjórnarráðsins með ómarkvissum og ónauðsynlegum hætti. Kostnaður við þetta nemur um tveimur milljörðum króna á einu kjörtímabili. Og enginn segir neitt. Á endanum eru það skattgreiðendur sem borga þetta eins og alla aðra óráðsíu stjórnvalda.

Verst er ástandið í forsætisráðuneytinu. Þar eru nú meira en fimmtíu embættismenn á launum. Fyrir 30 árum voru þeir 15 talsins og samt gekk nokkuð vel að stjórna landinu. Alla vega ekki verr en núna.

Ekki verður séð að gæði stjórnsýslu æðstu stjórnar íslenska ríkisins hafi batnað með áberandi hætti á þessum 30 árum. Væntanlega mun einhver vekja athygli á því til skýringar að nú hafi verið stofnuð sérstök skrifstofa jafnréttismála í forsætisráðuneytinu þar sem sex embættismenn eru vistaðir. Ekki er vitað hver verkefni þessarar skrifstofu eru en ríkið rekur sérstaka stofnun, Jafnréttisstofu, á Akureyri sem fæst við sömu verkefni. Samkvæmt fjárlögum starfa þar átta manns og kostnaðurinn við Jafnréttisstofu nemur á þriðja hundrað milljónum króna árið 2022.

Óútskýrð þensla í forsætisráðuneytinu á undanförnum árum hefur leitt til þess að nú telur ríkisstjórnin þörf á að byggja 1.200 fermetra viðbótarbyggingu við gamla og fallega stjórnarráðshúsið til að koma öllu þessu fólki fyrir. Sú framkvæmd á lóðinni við Lækjartorg mun væntanlega skemma heildarmynd stjórnarráðsreitsins. Vont er að fáir nefna þessa hættulega útþenslustefnu og því mallar vitleysan bara áfram óáreitt.

Ráðdeild vantar í opinberum rekstri, bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Framkvæmd ábyrgrar stefnu þarf að byrja á toppnum. Á Íslandi dugar fyllilega að hafa sjö ráðherra og jafnmarga aðstoðarmenn ráðherra. Dvergríkið þarf ekki á stærri yfirstjórn að halda. Þá mætti fækka þingmönnum um þriðjung og sama ætti alveg að geta gengið hjá sveitarfélögunum. 

Best og táknrænast væri að draga stórlega úr rekstrarkostnaði og umsvifum forsætisráðuneytisins og vinna svo umbótastörfin niður eftir kerfunum frá toppnum. Kominn er tími til að skattgreiðendur vakni og láti til sín taka. Það eru nú einu sinni þeir sem borga brúsann.

- Ólafur Arnarson