Verður lausaganga framsóknarmanna í Reykjavík bönnuð?

Æ fleiri kjósendur í Reykjavík eru að átta sig á því að það er nánast stílbrot að ljá Framsóknarflokknum atkvæði sitt á höfuðborgarsvæðinu. Flokkurinn er ábyrgur fyrir því að íbúar Reykjavíkur og nágrennis hafa einungis hálft atkvæði í Alþingiskosningum á móti heilu atkvæði íbúa dreifbýlis.

Með því að berjast gegn þeim sjálfsögðu mannréttindum að atkvæði allar kjósenda á landinu séu jöfn, seilist þessi landsbyggðarflokkur til mun meiri valda en hann á með réttu að hafa. Reykvíkingar ættu að hugsa um þetta þegar þeir nýta atkvæðisrétt sinn á morgun. Þá munu allir kjósendur hafa heilt atkvæði en í öllum Alþingiskosningum hafa höfuðborgarbúar einungis hálft atkvæði – í boði Framsóknar.

Nú á Framsóknarflokkurinn engan borgarfulltrúa í Reykjavík enda hlaut hann einungis stuðning þriggja prósenta kjósenda í kosningunum fyrir fjórum árum. Nú gerir flokkurinn tilkall til þess að fá mann eða menn kjörna í borgarstjórn Reykjavíkur. Þeir hafa farið mikinn í kosningabaráttunni og varið tugum milljóna króna í auglýsingar þar sem kynntir hafa verið innantómir frasar. Enga heilstæða eða nothæfa stefnu er unnt að lesa út úr auglýsingum og málflutningi framsóknarmanna. Einungis það að gera eigi breytingar breytinganna vegna.

Samkvæmt skoðanakönnunum hefur Framsókn mælst með fylgi kjósenda sem flúið hafa sökkvandi skip Miðflokksins og Sjálfstæðisflokkinn vegna óánægju með frambjóðendur og vinnubrögð þess flokks. Lítið er um að fólk ætli að kjósa Framsókn vegna stefnu enda reynist erfitt að koma auga á hana. Margir hafa búist við því að flokkurinn hefði áform um að efna til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn eins og Miðflokkurinn hefur gert á yfirstandandi kjörtímabili. En þá bregður svo við að Einar Þorsteinsson, efsti maður á lista Framsóknar, harðneitar því í viðtölum við fjölmiðla að samstarf við Sjálfstæðisflokkinn sé áhugaverður kostur enda sé flokkurinn þverklofinn og varla stjórntækur.

Sjálfstæðismönnum hefur sárnað þessi afstaða. Einn þeirra sagði við undirritaðan að réttast væri að banna lausagöngu framsóknarmanna í Reykjavík . . . !

Í skoðanakönnunum hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki litið vel út. Flestar mælingar hafa gert ráð fyrir því að fylgi flokksins í Reykjavík verði í kringum 20 prósent sem gæfi honum væntanlega fimm menn kjörna í borgarstjórn í stað þeirra átta sem nú eru fulltrúar flokksins. Þeir sem hafa fylgst lengi með kosningum telja að fylgi Sjálfstæðisflokksins verði meira en þetta og spá því að hann fái sex borgarfulltrúa kjörna. Yrði það engu að síður mikið pólitískt áfall fyrir flokkinn.

Ástæður þess að Sjálfstæðisflokkurinn nær sér ekki á strik í höfuðborginni eru margvíslegar. Sú stefna sem flokkurinn hefur talað fyrir er ruglingsleg og ótrúverðug. Niðurrifsstefna flokksins allt yfirstandandi kjörtímabil geðjast kjósendum ekki. Leiðtogi listans hefur ekki náð að heilla kjósendur og enn síður aðrir frambjóðendur á listanum. Þá er það ekki að hjálpa til að fram hefur komið í viðtölum við leiðtoga annarra flokka að þeim hugnast ekki að vinna með Sjálfstæðisflokknum. Leiðtogar sumra flokka hafa þvertekið fyrir mögulegt samstarf við Sjálfstæðisflokkinn og aðrir hafa lýst verulegum efasamdum um mögulegt samstarf, meðal annars vegna klofnings í Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík. Sumir segja að flokkurinn sé engan veginn stjórntækur vegna innri átaka.

Á þessari stundu, daginn fyrir kjördag, bendir því flest til þess að núverandi meirihluti haldi velli og vinni áfram í farsælu samstarfi eins og verið hefur síðustu fjögur árin. Þá verður Dagur B. Eggertsson áfram borgarstjóri og getur nýtt reynslu sína og yfirburðaþekkingu á borgarmálum Reykjavíkur næstu fjögur árin, íbúum borgarinnar til heilla.

Gleðilegan kjördag og gleðilegt Eurovision-kvöld. Áfram systur! Áfram Ísland!

- Ólafur Arnarson