Vantraust á sigmund hefði verið rökrétt

Margir telja það mistök hjá stjórnarandstöðunni að hafa ekki látið nægja að flytja tillögu um vantraust á Sigmund Davíð í stað þess að krefjast þingrofs og kosninga.

Stjórnarandstaðan má vita að stjórnarflokkarnir munu alltaf fella tillögu um þingrof og taka höndum saman um það. Þeir vilja ekki missa völdin og munu hanga á völdunum meðan kostur er.

Hins vegar er líklegt að nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu komið sér undan því að verja Sigmund vantrausti einfaldlega vegna þess að þeir telja hann sekan um siðleysi og svik við þing og þjóð. Vilhjálmur Bjarnason er dæmi um það og fleiri eru sama sinnis.

Náttfara er kunnugt um að margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru stórhneykslaðir á forsætisráðherra og vilja helst sjá hann víkja úr stjórninni og að Bjarni Benediktsson tæki við forystunni. Það þarf ekkert þingrof til þess.

Framkoma Sigmundar Davíðs undanfarna daga hefur auk þess ekki hjálpað til. Hann sýnir dónaskap og hroka. Ekki vottar fyrir auðmýkt eða iðrun heldur vaxandi forherðingu.

Sigmundur Davíð þarf að víkja. Fyrr verður ekki stundarfriður á Íslandi.