Uppstokkun í ríkisstjórn á gamlársdag

Náttfari hefur eytt helginni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Þetta er fimmti landsfundur minn. Andrúmsloftið er gjörbreytt frá því sem var þegar Davíð Oddsson reif upp stemninguna með þrumuræðum og herkvöð til flokksmanna. Nú er heldur dauft yfir öllu. Ljóst er að ný skoðanakönnun sem mælir flokkinn með 21,7% hefur ekki orðið til að bæta andrúmsloftið.

Það breytir samt ekki hinu að áhugaverðasti hluti landsfundar er að hitta mann og annan þar sem áhugafók um stjórnmál spjallar saman og skiptist á skoðunum. Ég hef hitt fjölda félaga og samherja þar sem menn hafa ráðið ráðum sínum. Flestir eru áhyggjufullir yfir slæmu gengi flokksins í skoðanakönnunum. Og ekki er það að batna. Einkum hafa menn áhyggjur af því að ungt fólk er mikið til að yfirgefa flokkinn eða öllu heldur gengur ekki til liðs við hann. Það er mikil og háskaleg breyting frá því sem áður var þegar flokkurinn höfðaði til ungs fólks ekki síður en hinna eldri.

Flestir tjá sig um viðtal sem birtist í vikunni við Bjarna Benediktsson þar sem hann sagði á afgerandi hátt að uppstokkun yrði gerð í ríkisstjórninni á næstunni. Formaðurinn staðfesti að við myndun ríkisstjórnarinnar hafi hann og Sigmundur rætt það sín á milli að eðlilegt væri að gera breytingar þegar liði á kjörtímabilið, hreyfa við fólki, færa verkefni til innan flokka eða jafnvel milli flokka. Menn hafa flestir skoðanir á þessu og telja að þetta sé sjálfsagt í þeirri þröngu stöðu sem flokkarnir eru í. Það sé allt að vinna og engu að tapa með því að gera breytingar.

Augljóst þykir að Illugi Gunnarsson hljóti að víkja í slíkri uppstokkun og einnig er staða Ragnheiðar Elínar Árnadóttur talin mjög veik. Þá er reiknað með því að Framsókn skipti Sigrúnu Magnúsdóttur út fyrir Vigdísi Hauksdóttur.

Á landsfundinum ræða menn vitanlega mest um það hverjir komi inn í ríkisstjórnina í stað Illuga og Ragnheiðar Elínar. Langflestir spá því að Jón Gunnarsson og Unnur Brá Konráðsdóttir fái tækifæri en þau hafa bæði verið áberandi í þingstörfunum og þótt standa sig vel. Jafnframt er gert ráð fyrir að heyfa fólk milli ráðuneyta. Því er spáð að Ólöf Nordal taki við menntamálaráðuneytinu af Illuga, Unnur Brá komi í hennar stað sem innanríkisráðherra og að Jón Gunnarsson verði iðnaðar-og ferðamálaráðherra í stað Ragnheiðar Elínar sem talin er hafa klúðrað upplögðu tækifæri sínu til að láta til sín taka þar á bæ.

Reyndir landsfundarfulltrúar halda því fram að breytingin fari fram á ríkisráðsfundi á gamlársdag. Með þetta mikilli breytingu verður ekki eins sárt fyrir fráfarandi ráðherra að hverfa úr stjórninni þó öllum sé ljóst að það valdi þeim aldrei neinni gleði.