Dáður sigmundur

Sigmundur Davíð nýtur fádæma vinsælda innan eigin flokks. Þar er hann dáður svo mjög að fólk klökknar undan ræðum hans og návist. Utan flokksins er Sigmundur Davíð óvinsælasti stjórnmálamaður sinnar þjóðar. Þar finnst fólki hann vera skrýtin útgáfa af Jónasi frá Hriflu og Michael Jackson.


Sigmundur Davíð er að mörgu leyti mjög heillandi maður. Hann getur verið hrókur alls fagnaðar á mannamótum - og kemur vel fyrir sig orði þegar hann er í ham, einkum á heimavelli.


En hann hræðist annað fólk en sína líka. Hann er pólitískt snertifælinn, vandur að sínum mat og menningu. Hann getur ekki skilið að annað fólk hafi aðra skoðun og aðra hugsun en hann sjálfur. Það hljóti að vera einhver spuni ættaður úr neðra. Það jaðri enda við landráð ef fólk leyfi sér að gagnrýna orð hans. Það sé ekki aðeins óskiljanlegt, heldur alla jafna sett fram af óeðlilegum hvötum, líklega sakir illvilja.


Sigmundur Davíð var í fullum færum að vaxa út úr flokki sínum við upphaf ráðherratíðar sínar. 


Þess í stað óx hann inn í eigin flokk.


Þar gildir það sama og um inngrónu nöglina. Að vaxa í vitlausa átt er sárt og pínlegt.