Trausti rúin ríkisstjórn – Kristrún með öll tromp á hendi

Ný skoðanakönnun Maskínu sýnir að enn tapar ríkisstjórnin fylgi og virðist með öllu rúin trausti. Samfylkingin bætir við sig fylgi í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri. Sjálfstæðisflokkurinn tapar og er ekki lengur stærsti flokkur landsins, með einungis 20,2 prósenta fylgi, en Samfylkingin mælist með 24,4 prósent og eykur stöðugt við forystu sína.

Samfylking fengi nú 16 þingmenn kjörna, samkvæmt könnun Maskínu, og bætti við sig 10 þingmönnum frá kosningunum í september 2021. Á sama tíma tapar Sjálfstæðisflokkurinn 4 þingmönnum og fengi einungis 13 menn kjörna. Samkvæmt því missti Sjálfstæðisflokkurinn tvo menn í Suðurkjördæmi, einn í Kraganum og einn í Reykjavík, sennilega forseta Alþingis.

Framsókn tapar fylgi frá kosningunum, fengi nú 13,2 prósent atkvæða og 9 þingmenn kjörna, tapar fjórum mönnum frá kosningunum. Verst er útkoma Vinstri grænna. Réttara væri að tala um útreið en útkomu. Fylgi VG er komið niður í sex prósent og þrjá þingmenn, en í kosningunum fékk flokkurinn átta menn kjörna. Stjórnarsamstarfið er orðið flokknum dýrkeypt. Þegar samstarf þessara þriggja flokka hófst í árslok 2017 þá var fylgi VG um 17 prósent og þingflokkurinn 11 manns. Nú er flokkur forsætisráðherrans hruninn og vandséð hvernig unnt er að bjóða þjóðinni upp á að Katrín Jakobsdóttir sitji áfram sem forsætisráðherra fylgislaus og rúin trausti.

Stjórnarandstöðuflokkarnir eru í sókn sem sést best á því að fylgi þeirra nú er meira en 60 prósent samtals en var 45 prósent í kosningunum 2021. Píratar fengju sjö menn kjörna, Viðreisn fengi sex þingmenn og bætti við sig einum.Miðflokkurinn er kominn í 5,7 prósent og fengi þrjá menn kjörna eins og Flokkur Fólksins. Sósíalistaflokkur Íslands er orðinn jafnstór og VG með sex prósenta fylgi og þrjá þingmenn samkvæmt þessari könnun.

Fylgi ríkisstjórnarflokkanna er einungis 39,4 prósent samtals og því er stjórnin kolfallin. Kristrún Frostadóttir virðist hafa öll tromp á hendi miðað við þá stöðu sem kæmi upp ef skoðanakönnun Maskínu gengi eftir. Þó er vert að hafa í huga að ekki verður gengið til Alþingiskosninga á Íslandi fyrr en árið2025 að óbreyttu. Einnig er erfitt að verja svo góðan árangur og Samfylkingin sýnir núna í lengri tíma. Hitt er svo annað mál að margir telja að Samfylkingin muni halda áfram að bæta við sig fylgi á kostnað ríkisstjórnarflokkanna þannig að ekki beri að líta á 24 prósenta stuðning sem neina endastöð.

Haldi þróunin áfram með þessum hætti blasir við að Kristrún Frostadóttir myndar næstu ríkisstjórn og margir telja að hugur hennar standi til þess að mynda vinstri stjórn. Samkvæmt þessari skoðanakönnun ætti það ekki að vera vandamál.

- Ólafur Arnarson.