Þröstur Leó Gunnarsson er einn ástsælasti leikari þjóðarinnar. Hann hefur glímt við mikinn kvíða eftir sjóslys sem hann lenti í árið 2015 en í slysinu trúði hann því að hann myndi deyja. Þröstur hefur síðan þá lært að ná ákveðnum tökum á kvíðanum.
Strax eftir slysið gaf Þröstur afleiðingum þess ekki mikinn gaum, rúmum sex vikum síðar fékk hann svo sitt fyrsta kvíðakast. Hann skildi ekki hvað var að gerast og var sendur með sjúkrabíl á sjúkrahús þar sem hann var skoðaður. Ekkert fannst og hann fékk að fara heim. Stuttu seinna hóf Þröstur að vinna í Þjóðleikhúsinu en kvíðinn hélt áfram. Eitt sinn fékk hann kvíðakast rétt fyrir sýningu á verkinu Hafinu er þar fór Þröstur með eitt aðalhlutverkanna.
,,Ég sat í sminki og allt í einu spyr sminkan mig hvort það sé í lagi, ég gat ekki talað en hún sagði að ég hefði orðið grár á þremur sekúndum,“ segir hann.
Þröstur hefur síðan áttað sig á kvíðanum og segir sér líða mun betur núna þegar sjö ár eru liðin frá slysinu. ,,Enn ein sjöan,“ segir hann.
Hann segir það hafa hjálpað sér mikið að tala um það sem gerðist. ,,Þarna strax eftir fyrsta kvíðakastið fór ég til Rúdólfs á Landspítalanum og hann fór í gegnum þetta með mér sekúndu fyrir sekúndu og það hjálpaði mér mikið,“ segir hann og vísar til Rúdólfs Adolfssonar geðhjúkrunarfræðings.
Hægt er að lesa allt viðtalið við Þröst Leó á vef Fréttablaðsins í dag.