Þórarinn Þórarinsson, blaðamaður, segir sprungur hafa komið í sjálfsmynd sína þegar hann var í stéttarfélaginu Dagsbrún. Það sé sé niðurbrjótandi að ná aldrei endum saman og þurfa reglulega að hækka yfirdráttaheimildina á snarsturluðum vöxtum.
„Það er svo langt síðan ég var verkamaður að ég var í Dagsbrún þannig að ef ég væri framreiknaður væri ég Eflingarfélagi. Samt auðvitað enn á sambærilegum skítalaunum og ég fékk fyrir að dæla bensíni hjá Essó gamla heitnum þegar ég þurfti reglulega að sækja mér kjarabætur í yfirdráttarheimild í Búnaðarbankann á snarsturluðum vöxtum,“ skrifar Þórarinn í bakþönkum Fréttablaðsins um helgina.
„Sprungurnar sem komu í sjálfsmynd mína á Dagsbrúnarárunum væru líka einnig á sínum stað. Það brýtur mann nefnilega smátt og smátt niður að ná aldrei endum saman og þurfa að keyra með krónískan 500 kall á tankinum í Endurvinnsluna með dósir í skottinu til þess að eiga fyrir mat og bleyjum,“ skrifar Þórarinn, og heldur áfram.
„Líka glatað að þurfa ár eftir ár að skála í seigum og ógeðslegum landa aðfaranótt 1. maí vegna þess að maður hefur ekki efni á vodkanum í ÁTVR. Og ekki rís maður heldur hátt þegar eina ljósið í myrkrinu er að boðað fjárnám verður árangurslaust vegna þess að maður á ekkert sem er þess virði að taka af manni.“
Þórarinn segist nú samt sem áður þakklátur fyrir Dagsbrúnarárin.
„Þótt þau hafi haft mótandi áhrif á mig sem þunglyndan alkóhólista og kvíðasjúkling þannig að svo skemmtilega [sic] vill til að ég er enn að vinna úr þeim með hjálp Sturlungsins sem fyllir þetta pláss aðra hvora viku,“ skrifar Þórarinn.
„Ég er þó allavegana nógu lífsreyndur til þess að vita að ég er í toppmálum á meðan ég hef efni á að sækja mér geðhjálp án þess að vera svo firrtur að finnast eðlilegt og sjálfsagt að þau sem halda tannhjólum tilveru manns gangandi, myrkranna á milli, eigi að gera það fyrir nánast ekki neitt.“