Tækifærissinnarnir stökkva til og reyna að fá skammtímaathygli

Nokkrir tækifærissinnar hafa reynt að vekja á sér athygli með vanhugsuðum yfirlýsingum vegna klúðursmála hjá Íslandsbanka. Þeir eiga það allir sammerkt að innihald yfirlýsinga þeirra er lítils virði og þeir hafa ekki gert annað með þessu en að afhjúpa sig sem ómerkilega tækifærissinna. Ætla má að flestir sjái í gegnum framgöngu þeirra og annað hvort vorkenni þeim eða fyrirlíti uppátækin.

Á laugardaginn skýrðu fjölmiðlar frá því að Þórarinn Ingi Pétursson ætlaði að krefjast þess í fjárlaganefnd Alþingis að starfslokasamningur fráfarandi bankastjóri Íslandsbanka verði opinberaður strax og sendur nefndinni til aflestrar og upplýsingar. Það fyrsta sem kom í hugann var spurningin um hver væri Þórarinn Ingi Pétursson sem boðaði kröfugerð af þessu tagi. Við skoðun á vef Alþingis kom fram að hann mun vera 9. þingmaður Norðurlandskjördæmis eystra fyrir Framsóknarflokkinn. Svo lítið hefur farið fyrir honum í þinginu að menn könnuðust ekki við manninn en sjá við athugun að hann er þingmaður og á sæti í umræddri nefnd. Þarna virðist hann hafa eygt tækifæri til að verða þekktur í hálftíma með því að reyna að hossa sér á vandræðum Íslandsbanka.

Spurning um starfslokasamning bankastjórans er ekki flókin og engan vegin dularfull. Þeir sem fylgjast með vita að óheimilt er að gera lengri starfslokasamninga við þá sem starfa í íslenskum fjármálafyrirtækjum en til 12 mánaða. Gera má ráð fyrir að allir bankastjórar hafi slíkan samning til 12 mánaða. Fram hefur komið að Birna Einarsdóttir var með í kringum 5 milljónir króna í laun á mánuði. Á 12 mánuðum gerir það 60 milljónir króna. Leyndardómurinn yfir þessum samningi getur ekki verið meiri en þetta. Alþingismenn eða aðrir þurfa ekki að æpa sig hása yfir þessu en gera það samt til að reyna að beina einhverri athygli að sér. Týndi þingmaðurinn Þórarinn Ingi var ekki sá eini sem reyndi að vekja á sér athygli vegna málsins um helgina. Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, gerði slíkt hið sama og loks kom formaður fjárlaganefndar, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður sama kjördæmis og Þórarinn Ingi, og sagðist mundu krefjast þess að fá starfslokasamninginn afhentan.

Þá er vert að staldra við þá staðreynd að Íslandsbanki er ekki bara í eigu ríkisins. Hann er hlutafélag í eigu mörg þúsund hluthafa þar sem ríkið á stærstan hlut sem nemur 42 prósentum hlutafjár. Aðrir hluthafar eiga því samtals 58 prósent hlutabréfa í bankanum. Óheimilt er að mismuna hluthöfum varðandi aðgang að upplýsingum og trúnaðargögnum. Ríkið - og alls ekki einstaka þingmenn - hafa engan rétt á því að krefjast svona upplýsinga. Aðalfundir og aðrir hluthafafundir eru rétti vettvangurinn til að veita hluthöfum upplýsingar og þá öllum um leið og öllum jafnar upplýsingar. Sé hluthöfum mismunað varðandi upplýsingagjöf er það lögbrot til viðbótar við að vera siðlaust. Þetta ættu Alþingismenn að vita. Það verður alla vega að gera þá kröfu til þeirra að þeim sé kunnugt um þetta. Ljóst er að ýmsir óbreyttir þingmenn vita þetta ekki og þá ber þingflokkum þeirra eða embættismönnum Alþingis skylda til að upplýsa þá og tryggja að þeir verði sér ekki til skammar með vanþekkingu af þessu tagi.

Fleiri tækifærissinnar hafa einnig farið á kreik. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, lætur mál af þessu tagi ekki fram hjá sér fara án þess að kveða upp stóradóm eins og honum er tamt. Hann hótar að færa viðskipti verkalýðsfélagsins frá bankanum. Það hefur hann gert áður af öðru tilefni. Bankinn myndi ekki finna mikið fyrir því. En mun alvarlegra er að Ragnar Þór, formaður VR, ætlar að beina því til stjórnarmanna í Lífeyrissjóði verslunarmanna að sjóðurinn sniðgangi bankann svo fremi að stjórnendur hans geri ekki eins og Ragnar Þór vill.

Ragnar Þór á ekki sæti í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna en VR velur helming stjórnarmanna sjóðsins. Með því að formaður VR leyfi sér að hafa afskipti af þessu tagi gagnvart ákvörðunum sjóðsins er hann að iðka skuggastjórnun. Það er óheimilt og ólöglegt. Láti Ragnar Þór verða af þessu þá getur það haft afleiðingar.

- Ólafur Arnarson.